VG á móti sölu á hlut í Landsvirkjun

0
55

Kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi varar sterklega við hugmyndum Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að hefja einkavæðingu á Landsvirkjun. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á auka kjördæmisþingi flokksins sem haldið var á Akureyri í dag.

vg-12044

Ályktunin í heild sinni hljómar svo:
„Kjördæmisþing Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í Norðausturkjördæmi, haldið á Akureyri sunnudaginn 13. janúar 2013, leggst alfarið gegn og varar sterklega við hugmyndum formanns Sjálfstæðisflokksins um að hefja einakvæðingu Landsvirkjunar. Eign ríkisins á Landsvirkjun, sem fer með víðtæk réttindi til nýtingar orkuauðlinda, er mikilvæg forsenda þess og helsta trygging fyrir, að þjóðin fái í sinn hlut vaxandi arð á komandi árum, eins og fyrirtækið hefur boðað að sé í vændum. Einnig að rekstri fyrirtækisins verði hagað í samræmi við áherslur stjórnvalda í umhverfismálum og opinbera eigendastefnu.

Áform um að hefjast aftur handa við einkavæðingu af þessu tagi vekja furðu í ljósi biturrar reynslu þjóðarinnar af slíku. Vinstrihreyfingarin-grænt framboð hefur staðið og mun standa vörð um eignarhald verðmætra ríkisfyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar ekkert lært.“

Á fundinum var einnig samþykktur framboðslisti VG  sem lítur svona út:

1.     Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra, Þistilfirði
2.     Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, Ólafsfirði
3.     Edward H. Huijbens, forstöðumaður, Akureyri
4.     Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari, Neskaupstað
5.     Þorsteinn Bergsson, bóndi, Fljótsdalshéraði
6.     Sóley Björk Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur, Akureyri
7.     Þorbjörn Rúnarsson, áfangastjóri, Egilsstöðum
8.     Sigríður Hauksdóttir, tómstundafulltrúi, Húsavík
9.     Kristjana Arngrímsdóttir, söngkona, Svarfaðardal
10.  Cecil Haraldsson, sóknarprestur, Seyðisfirði
11.  Björn Halldórsson, bóndi, Vopnafirði
12.  Inga Margrét Árnadóttir, ferðaþjónustubóndi,  Svalbarðsströnd
13.  Bjarni Þóroddsson, háskólanemi, Akureyri
14.  Hildur Friðriksdóttir, háskólanemi, Akureyri
15.  Andrés Skúlason, oddviti, Djúpavogi
16.  Jana Salóme Jósepsdóttir, háskólanemi,  Akureyri
17.  Dagur Fannar Dagsson, hugvísindamaður, Akureyri
18.  Þuríður Backman, alþingismaður,  Egilsstöðum
19.  Guðmundur H. Sigurjónsson, verkamaður, Neskaupstað
20.  Málmfríður Sigurðardóttir, fyrrv. alþingiskona, Akureyri