Verkefnisstjóra mótvægisaðgerða sagt upp – Kaflaskil og breyttar áherslur segir oddviti

Ekki stefnan að selja húsið

0
744

Um mánaðarmót maí/júní tók uppsögn Anítu Karin Guttesen verkefnisstjóra mótvægisaðgerða gildi, en til mótvægisaðgerða var stofnað vegna fækkunar starfa í sveitarfélaginu vegna breytinga á starfsemi Þingeyjarskóla skólaárið 2015-16. Eftir að starfssemi Þingeyjarskóla var sameinuð á einni starfsstöð, stóð húsnæði Litlulaugaskóla (Seigla) á Laugum eftir tómt og hefur verkefnisstjórinn leitt starf sem hafði það að markmiði að skapa tækifæri fyrir nýja starfsemi í sveitarfélaginu og eftir föngum styrkja umgjörð þeirrar starfsemi sem fyrir var. Verkefnisstjórinn var í 50% starfi.

641.is lagði nokkrar spurningar fyrir oddvita Þingeyjarsveitar Arnór Benónýsson um framhaldið og m.a. hvort til stæði að selja húsið.

Er þar með formlegum mótvægiaðgerðum lokið að hálfu sveitarstjórnar ?

Mótvægisaðgerðirnar fólust ekki fyrst og fremst í starfi verkenisstjóra heldur að skapa vettvang og aðstöðu fyrir ýmiskonar starfsemi í húsinu. Verkefnisstjóri var ráðinn tímabundið til að halda utan um og móta upphaf starfsins. Anítu fórst það vel úr hendi og á þakkir skyldar fyrir það sem hún gaf þessu starfi. Í húsinu er nú þegar fjölbreytt starfsemi þó enn sé þar rúm fyrir fleiri. Nú er hins vegar komið að kaflaskilum og áherslur breytast í þá veru að sinna sem best því starfi sem fyrir er og gefa því tíma til að þroskast og eflast.

 

Mér skillst að húsvörðurinn sé í 30% starfi, Verður svo áfram ? (Leiðrétting starfið er 50%)

Eins og fyrir segir er komið að kaflaskilum og verið að vinna að skipulagi framtíðarinnar. Því get ég ekki sagt um hvert starfshlutfall húsvarðar eða umsjónarmanns verður.

 

Hvað sjáið þið fyrir ykkur varðandi framtiðarnotkun á húsinu ?

Þau fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem starfa nú í húsinu eru og verða grunnurinn í rekstri hússins. Þar er ekki verið að tjalda til einnar nætur.

 

Kemur td. til greina að selja húsið og kanski eitt eða tvö félagsheimili í Þingeyjarsveit ?

Það er ekki stefnan að selja húsið.
Hvað félagsheimilin varðar hefur verið rætt um sölu og eða leigu þeirra undanfarin ár. Rætt hefur verið við eignaraðila og félagasamtök sem þar eiga hlut að máli án þess að niðurstaða sé fengin.
En eitt er ljóst að ekki verður farið í slíkar framkvæmdir án þess að ræða það nánar við íbúa. Þess vegna er óþarfi að láta sér bregða þó einhverjir sýni áhuga á þessum eignum. Þetta er flókið mál sem þarf að vinnast af yfirvegun. Það stendur hins vegar upp á undirritaðan að ýta þessum málum áfram og vonandi verður sumarið verkadrjúgt.

 

641.is þakkar oddvita fyrir svörin.