Verjum heimilin – tryggjum fjárhagslegt öryggi

0
65

Þúsundir íslenskra heimila eru í herkví. Þau berjast við stökkbreyttar skuldir, ofsköttun vinstri stjórnar, fátækleg tækifæri á vinnumarkaði og jafnvel atvinnuleysi. Út úr þessari herkví verður að brjótast, enda verður með því lagður grunnur að aukinni hagsæld hér á landi.

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram raunhæfar tillögur til að bæta skuldsettum heimilum þá stökkbreytingu sem varð á húsnæðislánum. Nái tillögurnar fram að ganga munu heimilin fá afslátt af tekjuskatti vegna afborgana af íbúðalánum. Þessi leiðrétting á að ganga til lækkunar á höfuðstóli húsnæðislána og léttir á greiðslubyrði heimila.  Einnig viljum við sjálfstæðismenn að fjölskyldur geti notað framlag í séreignasparnað til að greiða inn á  höfuðstól lána og njóti til þess skattfrelsis. Þannig geta launamenn nýtt ígildi allt að 4% launa til að greiða niður höfuðstól lána.

 

Lausn á skuldavanda heimilanna er eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar á fyrstu mánuðum nýs kjörtímabils. Sjálfstæðisflokkurinn er með raunhæfar og skynsamlegar tillögur til lausnar, en um leið er litið til framtíðar. Þannig leggja sjálfstæðismenn áherslu á að hvetja til aukins sparnaðar á sama tíma og  fólki er auðveldað að eignast eigið húsnæði með skattaafslætti á móti reglubundnum sparnaði til íbúðakaupa.

Engar útfærðar tillögur

Flokksþing annarra stjórnmálaflokka hafa ekki komið fram með neinar útfærðar tillögur til lausnar á vanda heimilanna. Samfylking og vinstri græn hafa fyrir löngu sagt að ekkert væri frekar unnt að gera í þessum efnum. Flokksþing framsóknarmanna ályktaði   ,,að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt“  án þess að segja hvernig. Framsóknarmenn vilja svo fela starfshópi að útfæra hugmyndir um afnám verðtryggingar neytendalána.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að almenningur hafi raunverulegt valfrelsi í eigin málum. Þetta á ekki síst við þegar kemur að fjármögnun eigin íbúðarhúsnæðis. Íbúðalánamarkaðinn verður að endurskipuleggja þannig að heimilum standi til boða óverðtryggð lán með föstum sanngjörnum vöxtum til langs tíma. En um leið á þeim, sem þess óska og telja hag sínum betur borið, að standa til boða verðtryggð langtímalán.

Markmiðið er að okkur Íslendingum standi til boða sambærileg lán og þekkjast hjá nágrannaþjóðum okkar.

Markviss og tímasett áætlun

Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir að það sé forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar á fyrsta starfsári að ganga frá markvissri og tímasettri áætlun um að verðtryggð húsnæðis- og neytendalán verði ekki almenn regla líkt og verið hefur. Efnahagslegur stöðugleiki er nauðsynleg forsenda þess að breytingar af þessu tagi geti náð fram að ganga.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar síðastliðnum ályktaði að nauðsynlegt sé að endurskoða þá þætti sem lagðir eru til grundvallar vísitöluhækkunar lána og sníða af þá vankanta sem valdið hafa fjölmörgum heimilum vandkvæðum.

Forsenda fyrir auknum hagvexti

Lausn á skuldavanda og uppstokkun á íbúðalánamarkaði er mikilvæg forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. Framtíðarskipan húsnæðis- og neytendalána þarf að taka mið af ríkjandi neytendaverndarreglum innan EES sem Ísland hefur þegar lögleitt. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa sem getur leitt til þess að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar. Mikilvægt er að afnema stimpilgjald til að auka samkeppni á fjármálamarkaði og jafnræði milli neytenda og fjármálastofnana.

Kristján Þór Júlíusson. Höfundur skipar 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.