Verður fyrsta fljótandi vínbúðin á Íslandi á Mývatni ?

0
1120

Auglýsing sem birtist í Fréttablaðinu í gær, þar sem Ríkiskaup/ÁTVR auglýsir eftir húsnæði til leigu undir fyrirhugaða vínbúð sem stendur til að opna í Mývatnssveit á næstunni, hefur vakið nokkra athygli vegna orðalags hennar. Ekki er hægt að skilja orðalag hennar öðruvísi en svo að opna eigi vínbúð á sjálfu Mývatni. Einar Ingi Hermannsson vakti athygli á undarlegu orðavali í auglýsingunni á facebook í gærkvöldi þar sem segir m.a.:

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins óskar eftir að taka á leigu um 60-100m2 húsnæði fyrir Vínbúð á Mývatni

Neðar í auglýsingunni er tekið fram að húsnæðið skuli vera á jarðhæð, vera á verslunarsvæði, góð aðkoma skuli vera að húsnæðinu fyrir viðskiptavini og næg bílastæði.

Eðli málsins samkvæmt vekur svona orðalag athygli og þar sem allir sem komnir eru til vits og ára tala um “í Mývatnssveit” en aldrei “á Mývatni”, nema þá að þeir séu á dorg eða einhver keppni standi yfir á ísnum á Mývatni.

Nokkrir Facebook-notendur telja þó að þetta geti verið til hagræðis fyrir Mývetninga að hafa vínbúðina fljótandi á pramma á Mývatni.

Einn facebook-vinur Einars skrifar svo:

“Svona eftir á að hyggja er þetta kannski góð hugmynd. Vínbúð á pramma sem gæti verið í förum – lagt upp í víkina við Skútustaðaskóla fyrir fólk sem er á hótelunum þar í grennd, svo upp að Vogatorfunni og líka við Reykjahlíðarþorpið og jafnvel upp undir Grímsstaði til að þjóna þeim á Flatskallanum”

Og annar skrifar:

“Rosa sniðug hugmynd, ætli sé þá bara hægt að hringja og fá prammann “heim á voginn”ef mann langar í gammeldansk með hafragrautnum”

Áhugasamir þurfa að skila inn upplýsingum um húsnæði til Ríkiskaupa í síðasta lagi 6. október nk.

Alla auglýsinguna má skoða hér fyrir neðan.

Mynd: Einar Ingi Hermannsson