Stefnt að birtingu verðskrá fyrir akstur um Vaðlaheiðargöng 30. nóvember

Stefnt á að opna göngin fyrir jól

0
1988

Stefnt er að þvi að verðskrá fyrir akstur í gegnum Vaðlaheiðargöng verði birt 30. Nóvember. Verðskráin verður birt á vefnum veggjald.is en hann verður væntanlega opnaður sama dag. Þar geta væntanlegir notendur Vaðlaheiðarganga keypt stakar ferðir, eða fleiri ferðir í einu fyrirfram.

Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga sagði í spjalli við 641.is í dag að kaup á ferðum í gegnum Vaðlaheiðargöng fari öll fram á netinu. Ekkert gjaldskýli verður við göngin eins og þekktist td. við Hvalfjarðargöng.

Á veggjald.is þurfa notendur að stofna sitt svæði og skrá þar inn númerið á bílnum sínum, kaupa ferð eða ferðir og tengja það við sitt debet eða kreditkort. Hægt verður að skrá allt að þrjú bílnúmer á hvert debet eða kreditkort og verður skráningin ókeypis. Því fleiri ferðir sem keyptar verða fyrirfram, þeim mun lægri upphæð greiða menn fyrir staka ferð.

Myndavélar sem staðsettar verða inn í Vaðlaheiðargöngum, taka myndir af öllum númerum á ökutækjum sem um göngin fara og skuldfæra síðan gjaldið á það kreditkort eða debetkort sem passar við bílnúmerið.

Veggjald.is – skjáskot

Í þeim tilfellum sem eigandi ökutækis hefur ekki keypt fyrirfram ferð eða ferðir á vefnum veggjald.is, mun viðkomandi greiða fullt gjald. Viðkomandi hefur þó þrjá klukkutíma til að skrá bílnúmerið og tengja það við sitt kreditkort eða debetkort inn á veggjald.is til þess að greiða lægri upphæð fyrir ferðina en ella, eftir að ferðin hefur verði farin.

Valgeir vildi ekki gefa það upp hve stök ferð muni kosta að svo stöddu, en sagði að þær tölur sem hefðu birst í fjölmiðlum fyrr í haust, fyrir staka ferð á venjulegum fjölskyldubíl undir 3.500 kg, væru ekki réttar. Stök ferð muni kosta minna.

Af framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng er það að frétta að allri malbikun inn í göngunum er lokið, en eftir er að steypa axlir. Nokkur vinna er enn eftir við rafbúnað inn í göngunum og vonaðist Valgeir til þess að allri vinnu yrði lokið fyrir jól og umferð hleypt á göngin, en nú þegar væri neyðarakstur leyfður í gegnum göngin.

Á facebooksíðu Vaðlaheiðarganga má fræðast meira um göngin og framgang framkvæmda.