Verðandi formaður BÍ “Þetta leggst bara vel í mig”

0
650

Guðrún Tryggvadóttir bóndi í Svartárkoti í Bárðardal núverandi varaformaður Bændasamtakanna og formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga tekur við formennsku hjá Bændasamtökum Íslands 1. mars nk. þegar Sindri Sigurgeirsson, sem verið hefur formaður sl. 6 ár, lætur af störfum og hverfur til annara starfa.

“Þetta leggst bara vel í mig. Það eru mörg mikilvæg verkefni framundan sem við þurfum að takast á við Íslenskir bændur. Mikilvægasta verkefnið er kannski að þétta raðirnar enn frekar til að geta sem best tekist á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir”, sagði Guðrún Tryggvadóttir í spjalli við 641.is í dag.

Bóndi.is segir frá því að Guðrún sé fyrsta konan til að gegna formennsku í heildarsamtökum bænda á Íslandi, allt frá því að þau fyrstu voru stofnuð undir nafninu „Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag“ árið 1837. Bændasamtök Íslands voru stofnuð í núverandi mynd árið 1995.

Við þessar breytingar verður einnig breyting á stjórn Bændasamtakanna. Guðrún Lárusdóttir, bóndi í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði, sem er fyrsti varamaður í stjórn tekur sæti í aðalstjórn frá 1. mars. Guðrún Lárusdóttir er einnig formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga.