Vélaverkstæðið í Árteigi hlaut hvatningarverðlaun AÞ

0
146

Vélaverkstæðið í Árteigi hlaut Hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga á aðalfundi félagsins, sem fram fór í Félagsheimilinu á Breiðumýri sl. mánudag. Vélaverkstæðið í Árteigi hlaut þessa viðurkenningu fyrir framúrskarandi framleiðslustarfsemi þar sem hugvit og fádæma verkþekking eru tvinnuð saman til hagnýtingar vatnsafls. Eiður Jónsson veitti viðurkenningunni móttöku og þakkaði fyrir hvatninguna fyrir hönd þeirra bræðra í Árteigi.

Hvatningarverðlaun 2015
Sif Jóhannesdóttir formaður stjórnar AÞ, Eiður Jónsson og Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri AÞ. Ljósmynd atthing.is.

 

Saga túrbínusmíði út með Kinnarfjöllum í Þingeyjarsýslu nær aftur um röska hálfa öld. Jón Sigurgeirsson í Árteigi hóf smíði á rafstöðvum fyrir 1950, en um var að ræða litlar rafstöðvar með 12 eða 24 volta jafnstraumsrafala sem voru settar í fjölmarga bæjarlæki í Þingeyjarsýslu.
Um 1950 byggði Jón sína fyrstu alvöru rafstöð fyrir Granastaðabæina, en svo kallast bæjarþyrpingin út með Kinnarfjöllum sem samanstendur af Granastöðum, Ártúni, Árteigi I og II og Fitjum. Hefur stöðin verið stækkuð í tvígang og endurbyggð og getur nú framleitt um 200 kw.

Um 1980 hóf Eiður, sonur Jóns, að starfa á verkstæðinu og tók við rekstrinum eftir að hafa lokið prófi í rafvirkjun. Um 1988 kom bróðir hans Arngrímur til starfa en hann er lærður vélvirki. Saman framleiða þeir bræður 3 til 4 túrbínur á ári. Við hönnun á þeim hafa þeir fengið til liðs við sig Árna S. Sigurðsson, vélaverkfræðing, sem starfar á Verkfræðistofu Norðurlands á Akureyri. Árni er sérmenntaður í túrbínufræðum og gerir alla helstu útreikninga varðandi smíðina.

Um 70-80 túrbínur, framleiddar í Árteigi, eru í gangi víðsvegar á Íslandi. Auk þeirra eru þrjár sem snúast á Grænlandi og ein í Færeyjum. Samtals framleiða þessar stöðvar rúmlega tvö megawött.
Nýjustu landvinningar fyrritækisins eru svo í veldi Pútíns austur á Kamsjatka skaga. Þangað er að fara þessa dagana 20Kw.

Í þessari starfsemi fer saman hugvit og verkþekking eins og best verður á kosið og útkoman verður farsæl framleiðslustarfsemi sem er til þess fallin að nýta þau staðbundnu verðmæti sem í smávirkjunum eru falin. atthing.is