Vekur Bárður Öskju ? – Stór jarðskjálfti við Öskju í nótt

0
82

Nóttin hófst á skjálfta upp á 5,3 í öskju Bárðarbungu. Um hálftíma síðar jókst virkni mjög við enda gangsins sem heldur áfram að skreiðast í norðurátt. Virknin náði einhvers konar hámarki um kl. 02:00 og hefur haldist nokkurn veginn þar síðan. Fjöldi skjálfta af stærðinni 2-3 hefur mælst þar. Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar.

Skjálftar 27 ágúst
Skjálftakort veðurstofunnar frá kl 10:15 í morgun. (smella á til að stækka)

Klukkan 01:52 mældist skjálfti upp á 4,5 rétt austan við Öskju. Einstaka smáskjálftar hafa sést þar fyrr í þessari viku. Fáeinir smáskjálftar hafa mælst þar fyrr í þessari viku en það er reyndar ekki óalgengt. Klukkan 02:50 varð aftur stór skjálfti í Bárðarbungu og mældist hann 5,2 að stærð. Klukkan 06:00 voru sjálfvirkt staðsettir skjálftar komnir upp í 500. Nánast allir urðu við norðurenda gangsins.

Enn er of snemmt að segja til um ástæður Öskjuskjálftans og afleiðingar en vel er fylgst með svæðinu. Samanborið við sama tíma í gær er virknin meiri. Stóru skjálftarnir í Bárðarbungu eru túlkaðir sem afleiðing þrýstingsbreytinga sem tengjast framrás gangsins.

Hvað gerist ef gangurinn nær alla leið til Öskju?

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur skrifaði fróðlega grein á bloggsíðu sinni nýlega um jarðhræringarnar í Bárðarbungukerfinu og segir ma. þetta:

“Kvikugangurinn frá Bárðarbungu heldur áfram að vaxa, en hefur nú breytt stefnu frá norðaustri til norðurs.  Hann stefnir því beint að megineldstöðina Öskju. Getur hann náð alla leið til Öskju?  Það er aðeins 25 km leið frá jökulsporðinum á Dyngjujökli og til Öskju”

“Það er því auðvelt að hugsa sér að nýi gangurinn  frá Bárðarbungu gæti náð til Öskju.  Ef það gerist, þá er atburðarásin háð því hvort gangurinn sker kvikuþró Öskju, eða sneiðir framhjá”.

“Kvikan er þungur vökvi og það er eðli hennar að streyma til hliðar, frekar en upp, svo framalega sem opin sprunga er fyrir hendi.  Mestar líkur eru því á gosi nú, þegar gangurinn skríður í gegnum jarðskorpuna undir söndunum norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju.  Ef hann gýs ekki þar, þá tekur við norðar mikið hálendi Dyngjufjalla, Kollóttudyngju og Ódáðahrauns og ólíklegt að hann komi upp á yfirborð þar”.

Lesa alla grein Haraldar hér

Hér má svo skoða myndband um þróun jarðskjálftavirkninnar frá byrjun hennar til dagsins í gær. Eins og sést færist jarðskjáfltavirknin nær og nær Öskju.