Vegurinn í Köldukinn lokaður næstu daga. Áfram skriðuhætta

0
147

Vegagerðin hefur nú tilkynnt að vegurinn um Köldukinn verði lokaður út vikuna og fram yfir helgi en sl. nótt féll í þriðja sinn aurskriða á svæðinu. Gunnar Bóasson, yfirverkstjóri vegagerðarinnar á Húsavík, segir þetta hafa verið ákveðið í samráði við sérfræðinga frá Ofanflóðasjóði sem komu á staðinn um hádegið í dag til að meta ástandið. Frá þessu er sagt á vefnum Akureyri vikublad.is

aurskriðan
Aurskriðan í morgun. Mynd. Heiða Kjartans.

 

Gunnar segir skemmdirnar á veginum mun meiri en áætlað hafi verið í morgun, það sé u.þ.b. 100 metra gat í veginn. Ekki sé óhætt að vinna á staðnum vegna hættu á frekari flóðum. „Við vorum að vinna þarna í dag, það var gröfumaður á veginum að ýta og ég stóð vaktina og horfði upp í hlíðina eftir því hvort flóð væri að koma, þá heyrði ég drunur og kallaði gröfumanninn frá og stuttu seinna sáum við spýju koma fram og fara niður í miðja hlíð þar sem hún hvarf og kom hvergi fram“. Gunnar segir að þetta sé einmitt það sem virðist vera að gerast þarna, jarðvegurinn skríður til og safnast upp eins og hálfgerðar vatnsblöðrur í hlíðinni þar til allt í einu að allt fari af stað. „Ég hefði ekki trúað að þetta væri svona nema af því ég sá það með eigin augum,“ bætti Gunnar við.

Ólafur Ingólfsson, bóndi í Hlíð, sem varð var við skriðuna þegar hún féll sl. nótt segist ekki vita til þess að áður hafi fallið skriður á þessu svæði.

Ekki er talið að bæir á svæðinu séu í hættu en tvö hús eru talin vera á hættusvæði en búið er í hvorugu þeirra. Ástandið verður metið aftur eftir helgi og þá kveðið upp úr um hvort óhætt sé að fara að gera við veginn.

Um er að ræða þjóðveg 85 til Húsavíkur og vegfarendum bent á að fara um Fljótsheiði og Aðaldalsveg. Það munar ekki nema fáum kílómetrum.

Mikil hlýindi eru víða um land og leysir snjóa hratt þessa dagana.  Töluvert af snjór er enn til fjalla sem veldur því að jarðvegur getur verið mjög blautur.  „Við slíkar aðstæður þarf lítið til þess að skriður fari af stað,“ segir á vef Almannavarna og eins megi búast grjóthruni úr háum bröttum hlíðum.  Viðbúið er að þessar aðstæður vari næstu tvo til þrjá daga eða jafnvel lengur, einkum Norðanlands.

Akureyrivikublad.is