Vegagerðin hlýtur viðurkenningu Minjastofnunar 2015

0
457

Á ársfundi Minjastofnunar Íslands sem haldinn var sl. föstudag, 4. desember, veitti stofnunin Vegagerðinni sérstaka viðurkenningu sína fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt eftir Minjastofnun tók til starfa í ársbyrjun 2013. Viðurkenningin er veitt Vegagerðinni fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum. Frá þessu segir á vef Minjastofnunar.

Fnjóskárbrú
Bogabrúin yfir Fnjóská við Vaglaskóg

Fá tæknileg mannvirki hafa haft meiri þýðingu fyrir íslenskt samfélag en fyrstu brýrnar sem reistar voru yfir stórfljót landsins í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar 20. Því er það mikils virði að tekist hefur að bjarga mikilvægum dæmum um þróunarsögu íslenskra brúarmannvirka, m.a. einu stálhengibrúnni sem eftir er frá 19. öld og fyrstu steinsteypubrúnni, sem reist var árið 1907. Sumar brýrnar lét Vegagerðin endursmíða að miklu leyti en í öðrum tilvikum voru einstakir hlutar endurnýjaðir. Markmið með endursmíðinni er tvíþætt: Að tryggja varðveislu merkra sögulegra mannvirkja og tryggja þeim nýja og verðuga notkun í tengslum við göngustíga og reiðleiðir. Í sumum tilvikum gegna brýrnar hlutverki í tengslum við áningastaði ferðamanna, t.d. við Skjálfandafljót hjá Fosshóli, þar sem gangan yfir gömlu stálgrindarbrúna er mikilvægur hluti af upplifun ferðafólks af gljúfrinu neðan við Goðafoss.

Gamla brúin við Fosshól
Gamla brúin við Fosshól

 

Gamlar brýr geta einnig haft varðveislugildi vegna byggingarlistar ekki síður en tækni- og samgöngusögu. Þannig er steinsteypubogabrúin yfir Fnjóská við Vaglaskóg frá sjónarhóli arkitektúrs eitt formfegursta mannvirki sem reist var hér á landi á 20. öld.

Listi yfir brúarmannvirki sem Vegagerðin hefur látið gera við eða endurbyggja í Þingeyjarsýslu

Bogabrúin yfir Fnjóská hjá Vaglaskógi, 55 m löng steypt bogabrú, byggð 1908. Hönnun : Christiani & Nielsen. Lengsti steinbogi á Norðurlöndum um langt skeið.

BakkaaMinni (1)
Bakkaá

 

Bakkaá á Tjörnesi, 5,5 m löng steypt bogabrú, byggð 1927.

Skjálfandafljót hjá Fosshóli, 71 m löng stálgrindabrú, byggð 1930.  Var í notkun til 1972. Kom í stað eldri brúar frá 1883.

Skoða nánar á vef Vegagerðarinnar