Veður fer nú versnandi Norðaustanlands og í kvöld er reiknað með hvassri norðanátt, jafnvel stormi og ofanhríð á Norður- og Norðausturlandi og eins á Vestfjörðum. Hætt við að mjög blint verði með þessu fram á nótt, en skotið verður gengið niður í fyrramálið. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Mynd: Jónas Reynir Helgason
Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni, sagði í samtali við Rúv að mjög hvasst verði, sérstaklega með ströndinni allt frá Vestfjörðum og austur með Norðurlandi og gert sé ráð fyrir talsverðri snjókomu þegar líður á daginn og kvöldið. Þá sé útlit fyrir skafrenning og ófærð.
Elín Björk bendir fólki sem hyggur á ferðalög því að leggja af stað snemma í dag eða bíða með ferðalögin þar til á morgun, þegar veðrið verður að mestu gengið niður. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hefur hækkað hættustig, sérstaklega á Norðurlandi þar sem nokkur snjóflóð hafa fallið að undanförnu. Ekki er þó gert ráð fyrir snjóflóðahættu í byggð þessa stundina.
Lítil hálka er nú á vestanverðu Norðurlandi en éljagangur nokkuð víða. Snjóþekja og skafrenningur er milli Hofsós og Fljóta en það er þungfært á Siglufjarðarvegi.
Á Norðausturlandi er snjóþekja á flestum leiðum enda er þar víða éljagangur eða skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Mývatnöræfum en þungfært er á Hólasandi. akv.is