Varað við raflínu sem liggur lágt – Landeigendur stóðu gegn lagningu jarðstrengs

0
166

Í tilkynningu frá Hjálprsveit Skáta í Aðaldal segir að raflínan sem liggur milli Reykjadals og Laxárdals liggi mjög lágt á köflum. Svo lágt að mönnum getur stafað hætta af. Þeir sem þarna eiga leið um eru beðnir að gæta sérstaklega vel að sér.

Raflínan er orðin ansi léleg. Kasthvammur og Árhvammur í baksýn
Raflínan er orðin ansi léleg. Kasthvammur og Árhvammur í baksýn. smella á mynd til að skoða stærri útgáfu.

Hallgrímur Óli Guðmundsson tók meðfylgjandi mynd sl. sunnudag, en á henni sést vel að raflínan liggur mjög lágt og mikill slaki er á henni. Margir staurar hallast í línunnni enda er hún talin ónýt. Búið er amk. einu sinni að rétta staura við í þessari línu. Hún hefur þó sinnt sínu hlutverki í vetur.

Heyrst hefur að til standi að skipta alveg um þessa raflínu á næstunni og fjölga staurunum um helming með tilheyrandi landraski.

Til stóð að leggja rafstreng í jörð sl. haust og rífa loftlínuna niður sem er í raun handónýt til að tryggja afhendingaröryggi á rafmagni. En þar sem enginn landeigandi á svæðinu vildi hleypa línulagningarmönnum í gegnum sitt land til þess að plægja niður jarðstreng, varð ekkert af þeim áformum.

Á meðan barist er fyrir því að raflínur séu lagðar í jörð allsstaðar í kringum landið til þess að losna vð loftlínur, þá stóðu landeigendur gegn því á þessu svæði. Það þykir með hreinum ólíkindum að enginn landeigandi hafi gefið leyfi fyrir þessu þar sem vitað er að núverandi loftlína er ónýt og bara tímaspursmál hvenær hún eyðileggst endanlega.