Valdi í Garði – Örfá fátækleg minningarorð.

0
261

Sigvaldi Jónsson frá Svínadal eða Valdi í Garði lést 8 . desember síðastliðin. Kynni okkar hófust sumarið 1974 þegar ég fór að keyra mjólk úr Bárðardal. Þá var Valdi mjólkurbílstjóri í Kelduhverfi. Við Mjólkurbílstjórar borðuðum oft í hádeginu á hótelinu á Húsavík . Var þar margt spjallað og glatt á hjalla. Þá var mjókinni ekið í brúsum úr sveitinni.

Jónas á Lundarbrekku
Jónas á Lundarbrekku

Mannsi í Fagranesi og Kobbi í Norðurhlíð keyrðu úr Aðaldal , Filli í Vallakoti úr Reykjadal og Bjarni Björgvins úr Kinn. Úr Mývatnssveit óku til skiptis Kalli í Álftagerði, Guðmundur á Hofstöðum og Ingólfur á Helluvaði. Um flutninga úr Reykjahverfi sá Bifreiðastöð Húsavíkur um, oftast Skarphéðin Jónasson , Valdi úr Kelduhverfi og Tjörnesi og svo ég úr Bárðardal.

Þarna kynntist ég Valda , þessari ljúfu kímni , samviskusemi og drengskap sem aldrei brást. Man hann handfjatla hrífusköft niður í kjallara KÞ og velja úr þau sem lágu sæmilega í, þannig að þau hrykkju ekki sundur við fyrsta átak. Bændur úr öðrum sveitum en Kelduhverfi og Tjörnesi fengu ekki slíka þjónustu í stóru sem smáu.

Tími skipti Valda litlu máli, hann virtist aldrei flýta sér, meira var um vert að vinna af samviskusemi og gera alminnilega það sem gert var.  Ég var á þessum tíma ekki kunnugur fólki úr Kelduhverfi eða Tjörnesi en Valdi sagði mér smáskrítlur af sveitungum sínum sem hlegið var dátt að. En í því sem öðru var farið fínt í sakirnar og yfirleitt voru fyndnustu sögurnar um hann sjálfan.

Árin liðu ,Valdi flutti til Húsavíkur og fór að aka olíubíl hjá Olís og rútum hjá Bjössa Sig. Við hittumst oft og áttum smá samskipti og öll voru þau á einn veg, skemmtileg í minningunni. Ég keyrði eitt sinn Harmonikufélag Þingeyinga til Vestfjarða. Eftirminnilega skemmtilega ferð. Þar á meðal var Valdi. Þar kynntist ég fyrst hagyrðingnum Valda. Aldeilis var það ekki sísti kostur hans. Hann fór á kostum í þessari ferð , en oftast byrjaði hann, ég er hérna með smávegis ,,óttalegan leirburð,,.

Ein var sú kúnst sem Valdi var flinkari við en flestir, hann var góður slátrari. Hann fór á síðustu árum vítt um sveitir og hjálpaði vinum sínum að slátra.  Einu sinni fékk ég hann til að flá fjóra belgi, eins og hann kallaði það. Ekki var nokkur leið að fá hann til að taka við greiðslu fyrir viðvikið.  En nokkru seinna færði ég honum Wiský flösku. Hann var glaður við en taldi þetta algeran óþarfa af mér. Þarna voru síðustu samskipti okkar Valda, eins og öll hin vinsamleg og ofar öllu skemmtileg.

Blessuð sé æfinlega minning Sigvalda Jónssonar, ég sakna hans.
Jónas á Lundarbrekku