Vaðlaheiðargöng opna 12. janúar – Stakt fargjald kostar 1500 kr – Ódýrasta fargjaldið kostar 700 krónur

0
1059

Formleg opnun Vaðlaheiðarganga verður 12. janúar 2019. Umferð um göngin verður gjaldskyld og verða veggjöld innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli. Mögulega verður unnt að opna göngin fyrir umferð undir lok desember en það ræðst þó af því hvernig miðar við lokafrágang ganganna. Ákveðið hefur verið að ef göngin verða opnuð fyrir umferð fyrir jól verður gjaldfrítt í þau til 2. janúar 2019. Frá þessu segir í fréttatilkynningu.

Vegskálinn Fnjóskadals megin

Vaðlaheiðargöng eru milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Heildarlengd þeirra með vegskálum er um 7,5 km. Til samanburðar eru Vestfjarðagöng – veggöng undir Breiðadals og Botnsheiði – samtals 9,1 km,  lengri leggur Héðinsfjarðarganga 7,1 km og Hvalfjarðargöng 5,8 km. Vegir að göngunum austan og vestan Vaðlaheiðar eru samtals 4,1 km.

Með Vaðlaheiðargöngum styttist þjóðvegur 1 frá Akureyri til Húsavíkur um 16 km. Fyrsta sprenging í göngunum var í júlí 2013 og því hafa framkvæmdir við þau tekið um fimm og hálft ár.

Neyðarrýmið (t.v.) í Vaðlaheiðargöngum

Vegfarendur greiða veggjald fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng. Það er ekki innheimt í gjaldskýli heldur greitt í gegnum www.veggjald.is  eða www.tunnel.is. Notendur ganganna búa til sitt svæði á www.veggjald.is, skrá þar númer ökutækis, tengja það við greiðslukortið sitt og geta þá keypt ferð eða ferðir. Skráning ökutækis er án endurgjalds. Hægt verður að skrá allt að þrjú ökutæki á hvert greiðslukort. Aðeins þarf að skrá ökutækið einu sinni í upphafi, frekari skráninga er ekki þörf. Sá sem skráir ökutækið á veggjald.is ber ábyrgð á því að allar upplýsingar séu réttar. Við eigendaskipti ökutækja og/eða aðrar breytingar ber viðkomandi að breyta skráningu á veggjald.is

Myndavélar eru í göngunum sem taka myndir af númerum ökutækja sem ekið er um göngin. Veggjaldið skuldfærist sjálfkrafa á það greiðslukort sem skráð er við bílnúmerið.

Á veggjald.is eru upplýsingar um gjaldskrá og þar er hægt að hlaða niður appi fyrir snjallsíma.

Innheimta veggjalds

Gjaldtakan er þrenns konar:

Innskráning á veggjald.is
Stofnaður aðgangur á veggjald.is og settar inn greiðslukortaupplýsingar og þau bílnúmer sem óskað er eftir að greiða fyrir. Við hverja ferð í gegnum göngin skuldfærist veggjaldið á viðkomandi greiðslukort. Hægt er að kaupa fyrirfram greiddar 10, 40 eða 100 ferðir á afsláttarkjörum. Því fleiri ferðir sem keyptar eru, þeim mun lægri upphæð greiðist fyrir hverja ferð.

Stakar ferðir
Hægt er að kaupa stakar ferðir á veggjald.is eða tunnel.is eða með símaappi allt að þrem tímum áður eða þrem tímum eftir að ekið er í gegnum göngin.

Óskráð númer
Ef ferð er ekki greidd innan þriggja klukkustunda frá því að ekið er í gegnum göngin verður veggjaldið innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis að viðbættu 1.000 kr. álagi.

Gjaldskrá  

Bílar undir 3.500 kg heildarþyngd (fólksbílar) Heildarverð   Verð pr. ferð kr.
Stök ferð greidd innan 3 klst. eða með innskráningu á veggjald.is   1.500 1.500
10 ferðir – keyptar á veggjald.is 12.500 1.250
40 ferðir – keyptar á veggjald.is 36.000    900
100 ferðir – keyptar á veggjald.is 70.000    700
 
Bílar 3.500 kg og yfir heildarþyngd (atvinnutæki) Heildarverð   Verð pr. ferð kr.
Stök ferð greidd innan 3. klst. eða með innskráningu á veggjald.is        6.000 6.000
40 ferðir – keyptar á veggjald.is    208.800 5.220

 

Stjórn Vaðlaheiðarganga hf.:
Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður, Egilsstöðum – GSM 8611840
Ágúst Torfi Hauksson, Akureyri
Pétur Þór Jónasson, Akureyri

Einn af neyðarsímunum í Vaðlaheiðargöngum