Útigengnir hrútar í göngum

0
412

Austur Bárðdælir fóru í fyrstu göngur um síðustu helgi. Smalasvæðið nær suður að Marteinsflæðu og er smalað norður með Skjálfandafljóti alla leið í Víðiker. Í austur nær svæðið í Kolmúladal og Suðurárbotna. Voru menn á eitt sáttir um að allt hafi gengið alveg eins og í sögu.

Safnið á veginum frá Stórutungu upp í Víðiker.
Mynd: Magnús Skarphéðinsson.

Veður var að mestu leiti gott en þó hvasst og blautt á köflum. Á laugardaginn fundust tveir útigengnir veturgamlir hrútar frá Víðikeri austast í Grafarlöndum sem er rétt austan við Réttartorfu. Trúlega hafa þeir haft vetrardvöl í Móflárhnausum en þar er algengt að fé finnist seint á haustin. Á sunnudag þegar gangnamenn nálguðust byggð í blíðskaparveðri
komu þónokkrir aðstandendur þeirra og aðstoðuðu við reksturinn síðustu kílómetrana.

Í Víðikeri var svo réttað seinnipart sunnudags og þar voru ungir sem aldnir iðnir við kolann.
Texti og myndir: Magnús Skarphéðinsson

Hrútar Víðikershjóna í aðhaldinu við Réttartorfu. Mynd: Magnús Skarphéðinsson.
Svartárkots feðgar, Hlini Gíslason og Gísli Berg Hlinason.
Mynd: Magnús Skarphéðinsson