Útboð á ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar samþykkt

0
197

183. fundur sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar var haldinn í Kjarna sl. fimmtudag 14. janúar. Tvennt gerðist á fundinum sem gerist ekki oft. Annað var það að tillaga frá minnihluta T-lista var samþykkt samhljóða og að sérstök bókun varðandi dagskrá fundarins var lögð fram af hálfu T-listans í upphafi hans.

Þingeyjarsveit stærra

Í upphafi fundarins var lögð fram tveggja daga gömul fundargerð starfshóps um ljósleiðaravæðingu frá 12. janúar, sem meirihluti A-lista hafði óskað eftir að bæta við dagskrá fundarins. Umrædd dagskrárbreytingin var samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa A-listans en fulltrúar T-listans greiddu atkvæði gegn því að málinu yrði bætt á dagskrá fundarins og lögðu fram eftirfarandi bókun vegna þess.

“Fulltrúar T lista telja að taka beri þetta mál fyrir á næsta reglulega fundi sveitarstjórnar þannig að betri tími sé til að átta sig á nýjum gögnum er varða málið”.

Varaoddviti lagði fram eftirfarandi tillögu starfshópsins til samþykktar:

Starfshópur um ljósleiðaravæðingu leggur til við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að ganga til samninga við Ríkiskaup um að annast útboð á ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar. Einnig leggur nefndin til við sveitarstjórn að gengið verði strax frá því að Ríkiskaup auglýsi eftir aðila eða aðilum sem sannanlega ætla að koma á ljósleiðaratengingu í Þingeyjarsveit á næstu þremur árum.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa A lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa T lista. Sveitarstjóra var falið að ganga til samninga við Ríkiskaup vegna auglýsingar og undirbúnings væntanlegs útboðs á lagningu ljósleiðara sveitarfélaginu.

Fulltrúar T-lista lögðu þá fram eftir farandi bókun:

 

„Við teljum að það vanti meiri tíma til að kanna gögn varðandi þetta mál og því greiðum við atkvæði á móti þessari tillögu.“

Fulltrúar T lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Fulltrúar T lista leggja til að hönnunargögn fyrir ljósleiðarvæðingu Þingeyjarsveitar sem Karl Hálfdánarson hefur unnið, verði keypt af honum og notað í áframhaldandi vinnu ljósleiðaravæðingar sveitarfélagsins. Verð hönnunargagnanna er 250 000 án vsk.“

 

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson T-lista lagði til að tillögunni yrði vísað til umfjöllunar í starfshópi um ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar.

Varaoddviti bar upp tillögu Hlyns um málsmeðferð til afgreiðslu sem var samþykkt samhljóða.

Fundargerð 183 fundar