Úrslit Orkugöngunnar

0
127

Buch-Orkugangan var haldin sl. sunnudag 13. apríl sl. í blíðskaparveðri við hinar bestu brautaraðstæður. Keppendur í 60 km göngunni voru rúmlega tuttugu og voru ræstir frá Leirhnjúki ofan við Kröflustöð kl. 10.

Kristbjörn, Birkir og Gísli.
Kristbjörn, Birkir og Gísli.

Fyrstur í mark var Kristbjörn R. Sigurjónsson, Ísafirði, á tímanum 3:06:17, annar var Gísli Einar Árnason frá Akureyri á tímanum 3:06:24 og þriðji Birkir Þór Stefánsson frá Ströndum á tímanum 3:06:54
Í flokki kvenna var Lisbeth Weltha frá Noregi fyrst í mark á tímanum 4:36:31, önnur var Ingunn Fjortoft, Noregi, á tímanum 04:48:28 og þriðja Brynhildur Gísladóttir frá Húsavík á 5:25:24

Í styttri göngum, 25 km, 10 km og 1 km voru hátt í fjörtíu keppendur. Rásmark 25 km göngu var við Þeistareyki og í 10 km sunnan Höskuldsvatn. Fjallasýn Rúnars Óskarssonar sá um að flytja alla keppendur að rásmarki því vegna mikilla snjóalaga var vegurinn ófær.

Fyrstur í 25 km göngu var Arnar Guðmundsson, Húsavík, á tímanum 1:44:52 og í 10 km göngu var það Sigurður Helgi Ólafsson, Húsavík, á tímanum 00:46:52. Flottur hópur krakka tók svo þátt í 1 km. göngunni.

Frá Orkugöngunni.
Frá Orkugöngunni.

Síðdegis var boðið til kjötsúpuveislu og verðlaunaafhendingar í Miðhvammi og voru allir mjög sáttir við góðan dag þar sem allt hélst í hendur, veður og brautaraðstæður. Verðlaunagripir voru hannaðir og unnir af Jónu Birnu Óskarsdóttur keramikhönnuð og Arnhildi Pálmadóttur arkitekt á Húsavík.

Mótsstjórn Orkugöngunnar vill þakka öllum þátttakendum, sjálfboðaliðum og áhorfendum fyrir góðan dag. Sérstaklega vill hún þakka öllum þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem lögðu okkur lið, þessi stuðningur gerir okkur kleift að hafa umgjörð Orkugöngunnar með þeim veglega hætti sem hún er.

Fleiri myndir frá Orkugöngunni má finna hér