Úr bakkgír á Bakka

0
84

Þó svo að Eftirlitsstofnun EFTA – ESA eigi eftir að gefa grænt ljós á samning vegna uppbyggingar kísilvers á Bakka við Húsavík, sem gæti tekið nokkra mánuði, erum við mun nær þessari fjárfestingu en áður. Sem betur fer og þó fyrr hefði verið. Vandræðagangur stjórnvalda við afgreiðslu málsins á síðustu dögum þingsins var með ólíkindum, en til lánsins var höggvið á hnútinn. Því er nú hægt að horfa fram á veginn og vinna að framgangi verkefnisins af krafti á öllum vígstöðvum.

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson

Til atvinnuuppbyggingar við Húsavík, með nýtingu jarðvarmaorku, hefur verið horft í meira en þrjátíu ár. Þáttaskil urðu í málinu árið 1998 þegar Þingeyingar og Eyfirðingar stóðu saman að stofnun Þeistareykja, fyrirtækis sem hafði það hlutverk að kanna til hlítar möguleika á orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Samstaða Þingeyinga og Eyfirðinga um málið hefur allar götur síðan verið einn af mikilvægustu þáttunum í framgangi verkefnisins. Ítrekað hafa steinar verið  lagðar í götu þess af hálfu núsitjandi stjórnvalda, sem kunnugt er.

 

Því betur hefur þó loksins náðst að þoka málinu í þá stöðu, ef allt gengur upp, að uppbygging geti hafist á Bakka áður en langt um líður. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Norðlendinga og þjóðfélagið allt.

Ný fjárfesting í landinu er ein af mikilvægustu forsendum þess að endurreisa efnahag landsmanna.  Vonandi verður fjárfesting í atvinnuuppbyggingu á Bakka til þess að rjúfa þá kyrrstöðu og stöðnun sem hefur einkennt atvinnulífið á því kjörtímabili sem er að ljúka.  Það verður að skapa ný störf í þessu landi og reyna með öllum mögulegum ráðum að draga úr atvinnuleysi og koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn. Atvinnuppbygging í Þingeyjarsýslum er mikilvægur liður í því.

Það eykur fólki bjartsýni að sjá að eitthvað er loksins að gerast með atvinnusköpun á Bakka, enda biðin orðin löng.  Byggðastofnun hefur metið  það svo að á næstu tíu árum fækki fólki að óbreyttu í Þingeyjarsýslum um 330 manns, en með iðnaðaruppbyggingu á Bakka megi vænta þess að íbúum á svæðinu fjölgi um 750 til 1200 manns.  Það munar um minna.

Ég skynja að samþykkt frumvarpanna vegna Bakka rétt fyrir páska var mörgum léttir, ekki síst Þingeyingum og Eyfirðingum. Það kemur okkur sem höfum lengi unnið að þessu máli ekki á óvart, enda skiptir þessi atvinnuuppbygging gríðarlega miklu máli. Hún léttir brúnina á fólki, sem eygir sókn í stað stöðugrar varnarbaráttu. Og þetta skiptir að sjálfsögðu atvinnulífið miklu máli – mér liggur við að segja sama hvar borið er niður; í bygginga- og verktakastarfsemi, þjónustu hverskonar og svo mætti lengi telja. Með tilkomu Vaðlaheiðarganga stækkar atvinnusvæðið og flæði vinnuafls á milli nágrannabyggða verður mun greiðara en áður. Það skiptir líka miklu máli.