Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi 2013

0
145

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin fimmtudaginn 17. október sl. og tóku um 130 manns þátt. Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar til þriggja ferðaþjónustuaðila.

Uppskeruhátíðin 2013
Sveinn, Erlendur og Sigríður

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Strýtan köfunarmiðstöð, Erlendur Bogason fékk viðurkenningu fyrir nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi

Erlendur er Vestmanneyingur, sem hefur kafað allt sitt líf og er orðinn þekktur fyrir neðansjávarmyndir sínar. Hann er lærður alþjóðlegur PADI köfunarkennari, hefur unnið við köfun í áratugi og við myndatökur og rannsóknir um land allt.
Strýtan köfunarmiðstöð er staðsett í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri við Eyjafjörð en Erlendur byrjaði að bjóða upp á köfun fyrir ferðamenn í samstarfi við Sportferðir árið 1994, og þá á Pollinum niður að skipsflakinu sem þar er. Fyrsta hverastrýtan fannst svo í Eyjafirði árið 1997 og síðan fundust fleiri. Þær eru núna friðaðar, og Erlendur er sá eini sem býður upp á tilbúnar ferðir niður að þeim. Þegar hverastrýturnar í Eyjafirði fundust varð mikið stökk í starfseminni hjá honum, og fjöldi gesta hefur vaxið mjög mikið á hverju ári undanfarin ár. Nú býður Köfunarmiðstöðin upp á köfunarnámskeið og köfun víða á Norðurlandi, ekki eingöngu við hverastrýturnar í Eyjafirði sem Erlendur er frægastur fyrir, heldur líka í Grímsey, í hraungjánum í Öxarfirði og við Drangey í Skagafirði.

Sveinn Jónsson á Kálfsskinni fékk viðurkenningu fyrir áratuga störf við ferðaþjónustu

Sveinn Jónsson, ferðaþjónustufrumkvöðull er fæddur árið 1932 og hefur komið víða við um ævina. Sveinn er sigldur ævintýramaður, góður íþróttamaður, fór ungur á lýðháskóla í Danmörku, vann m.a. á Keflavíkurflugvelli, og við leigubílaakstur í Reykjavík. Hann lærði smíðar, og vann við byggingar í Reykjavík. Sveinn er bóndi í Kálfsskinni og var byggingameistari í sinni sveit og víðar. Hann stofnaði ýmis fyrirtæki t.d. byggingafyrirtækið Kötlu ehf., með fjölskyldu sinni, og Tréverk hf. með Dalvíkingum. Sveinn er mikið félagsmálatröll og hefur starfað bæði í Ungmennafélaginu og Búnaðarsambandinu auk fleiri samtaka t.d. Landsbyggðin lifi. Hann var kosinn í sveitarstjórn 1966 og varð fljótlega oddviti og síðar sveitarstjóri.
Störf Sveins í ferðaþjónustu hófust með uppbyggingu á ferðaþjónustu í Ytri-Vík í gamla húsinu þar sem Sveinn byrjaði með gistingu og kaffihlaðborð á sunnudögum árið 1983. Fljótlega bættust við sumarhús og heitir pottar, gestunum fjölgaði og fyrirtækið byggðist upp, óx og þroskaðist. Þeir feðgar Sveinn og Marinó stofnuðu síðar Sportferðir, alhliða ferðaþjónustufyrirtæki þar sem unnið er í fjölbreyttu samstarfi við marga aðila og boðið upp á ýmsa afþreyingu s.s. vélsleða-, jeppa-, fjallaskíða-, göngu-, hesta-, og sjóferðir, skot- og stangveiði, köfun og margt fleira.
Sveinn er mikill græjukall og uppfinningamaður sem sér alltaf ný og ný verk sem þarf að vinna í samfélaginu. Hann er vel þekktur að því að dreyma stórt og má þar meðal annars nefna hugmyndir um kafbát á Eyjafirði, til að skoða sjávarlífið, glergöng út með Eyjafirði í sama tilgangi og kláfferja upp á Vindheimajökul, sem myndi gagnast skíðamönnum og ferðamönnum en þetta er gömul hugmynd hjá Sveini sem vakið hefur athygli, og hann er ekki einn um að vera sannfærður um að sé raunhæf.
Sveinn hefur sjálfur sagt þetta: „Hamingjan er fólgin í tvennu. Í fyrsta lagi að hafa í nógu að snúast, því að þeim sem hefur nóg að starfa þarf aldrei að leiðast. Í öðru lagi að fá að lifa og starfa með góðu fólki“
Þetta lýsir vel störfum hans og allra þeirra sem starfa í ferðaþjónustu og viljum við með þessari viðurkenningu þakka Sveini fyrir hans störf hans og mikil og góð áhrif á ferðaþjónustuna á Norðurlandi í gegnum árin.

Gestastofa Sútarans – Sigríður Káradóttir fékk viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu

Gestastofa sútarans frá Sauðárkróki er staðsett í einu sútunarverksmiðjunni í Evrópu sem framleiðir leður úr fiskroði. Með gestastofunni er ferðamönnum og almenningi opnaður aðgangur að sútunarverksmiðju og afurðum hennar á óvenjulegan hátt. Fiskleður hefur heillað hönnuði heimsþekktra vörumerkja eins og Prada, Dior og Nike og hefur Sjávarleður á Sauðárkróki m.a. fengið alþjóðleg verðlaun á stórri leðursýningu í Hong Kong fyrir „Besta lúxus leðrið“ fyrir vor/sumar línu fyrirtækisins 2014.
Gestastofa Sútarans var önnur Hagleikssmiðjan á Íslandi sem sett var upp að kanadískri fyrirmynd, en svokölluð Economuseeum eru rekin víða um Kanada til að varðveita handverk, aðferðir og þekkingu. Í samstarfi við önnur Evrópuríki er unnið að hagleikssmiðjum í Norður-Evrópu þar sem gestum gefst færi á að kynnast hefðum og siðum heimamanna og sýna þá möguleika sem felast í handverkinu og aðferðum. Boðið er upp á skemmtilega skoðunarferð um verksmiðjuna þar sem fylgst er með hvernig roð er sútað svo úr verður úrvals fiskleður. Í verslun gestastofunnar gefst tækifæri til kaupa hönnun og handverk í nálægð við uppsprettu hráefnisins og fá upplýsingar um vöruna frá fyrstu hendi.

Sýningar á næsta leiti sem Markaðsstofan tekur þátt í

Nú stendur yfir vinnuferð á Finnlandi þar sem aðstæður eru skoðaðar og vinnufundir haldnir í tengslum við vetrarferðamennsku. Á vinnufundunum er verið að skoða hvernig hægt sé að nýta þá þekkingu sem hefur skapast í Finnlandi varðandi ferðamennsku utan háannar. World Travel Market er á næsta leiti og tekur markaðsstofan þátt í þeirri sýningu eins og oft áður.  Þar hittast breskir ferðaskipuleggendur og hagsmunaaðilar greinarinnar. Winter Show verður haldin í Svíþjóð í byrjun nóvember. Sýningin er vetrarsýning og fer MN í samstarfi við skíðasvæði Norðurlands á sýninguna að kynna vetraráfangastaðinn Norðurland með áherslu á skíði. Mid Atlantic er í Reykjavík, á sínum stað í febrúar og vill MN benda sínum samstarfsaðilum á að sú sýning er góð og kostnaður ekki mjög mikill. MN hefur skráð sig Iceland Travel Workshop í Reykjavík í maí og er það annað árið sem sú sýning er haldin.

FAM ferðir á næstunni

Í byrjun nóvember er Island Pro Travel að leggja leið sína til Norðurlands og mun hópurinn ferðast bæði austur og vestur um. Í byrjun desember er FAM ferð á vegum Iceland Travel í samvinnu við MN, þetta eru aðilar frá danska markaðinum sem sækja okkur heim. Í febrúar 2014 mun MN í samstarfi við WOW Air vera með FAM ferð, og aftur er það danski markaðurinn sem er undir þó eru þeir söluaðilar að selja frá fleiri mörkuðum.

Við minnum á að reglulega koma blaðamenn og ferðaskrifstofu aðilar norður að kynna sér aðstæður og vill MN endilega fá ábendingar um fyrirtæki sem vilja taka að sér að kynna sig og svæðið í þessu samhengi.

North Iceland á Trip Adsvisor

Til gamans þá má sjá hér http://goo.gl/WsTAWq  að Norðurland er komið með sér svæði á Trip Advisor og hvetjum við alla til þess að nýta sér þá síðu. Fyrir þá sem eru þegar skráðir er gott að fara yfir upplýsingar og athuga hvort að allt sé rétt og uppfært.