Uppnám meðal nemenda í Litlulaugaskóla

0
259

Meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar tilkynnti í gær tillögu sína um framtíð Þingeyjarskóla. Sú ákvörðun var mikið til umræðu í Litlulaugaskóla í dag meðal nemenda og olli talsverðu uppnámi. Í hópi 9.-10. bekkjar var mikill hiti vegna þessa máls og flestir voru leiðir og ekki sáttir. Hefðbundin kennsla vék að mestu, vegna þess að fæstir voru tilbúnir til að takast á við hefðbundið nám í dag.

Litlulaugaskóli
Litlulaugaskóli

Í tölvupósti til foreldra frá umsjónarkennurum í Litlulaugaskóla sem sendur var út í dag, kemur fram hvatning til foreldra um að ræða þessi mál heima um helgina við börnin sín.

“Þau hafa mikla þörf fyrir að tala um þetta og velta fyrir sér mögulegum afleiðingum. Þó svo að 10. bekkingarnir séu að ljúka námi sínu í vor, þá skiptir þetta þau miklu máli og þau þurfa á því að halda að rödd þeirra heyrist. Þá eru foreldrar, sérstaklega ef barninu þeirra líður illa með eitthvað við þessar aðstæður, að láta vita af því í skólanum”.

“Tilfinningaleg vanlíðan og óöryggi hjá börnum brýst oft fram í hegðun og það hjálpar okkur til þess að mæta slíku og taka á því af skilningi og réttvísi ef við þekkjum betur til um almenna líðan barnanna og ástand”, segir ma. í póstinum frá því í dag.