Uppgræðsla í Kinnarfelli.

0
162

í dag 16. september er Dagur íslenskrar náttúru, þá er skemmtilegt að setja inn svona ánægjulega frétt.

Fyrir rúmu ári féllu aurskriður við bæinn Ystafell í Kaldakinn í Þingeyjarsveit. Skriðurnar voru alls 6 talsins ásamt nokkrum smáspýjum, sú fyrsta féll 28. maí og var hún nyrst þeirra, hún tók stóran hluta af um 12 – 15 ára gamalli skógrækt, yfir þjóðveginn og lokaði honum í fáeina klukkutíma. Næsta skriða féll 29. maí, hún var syðst skriðanna og féll niður í gegnum skógræktarreit hjá Ystafelli 1, yfir heimatúnið og í dokk ofan við þjóðveg, hún rann síðan norður með þjóðvegi að fyrri skriðu.

Stærsta skriðan féll svo 4. júní í syðri jaðri fyrstu skriðunnar og virka þær nú sem ein heild. Þetta var afar öflug skriða, olli enn meiri spjöllum á skógrækt, rauf þjóðveginn á um 100 m kafla og tók með sér, girðingar, raflínustaura og sleit raflínur. Hún náði langt vestur yfir Rangá og inn á nyrsta túnið í Hlíð, spillti þar um 1 hektara túns og skemmdi skjólbelti. Heildar umfang sára eftir skriður og landsvæði sem er þakið aur úr skriðunum er 34 hektarar.

Strax og skriðurnar féllu fóru landeigendur að huga að því að græða upp sárin sem skriðurnar skildu eftir.

Gefum Erlu Sigurðardóttur frá Ystafelli orðið.” Við leituðum strax ráða hjá Landgræðslunni. Ég var í sambandi við landeigendur en þeir eru fleiri en við Ystafellsfólk og það varð að samkomulagi að ég héldi utanum þessa vinnu og stýrði því í samráði við starfsmenn Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Við Daði Lange hjá Landgræðslunni skipulögðum vettvangsferð um skriðurnar um leið og fært var þar og óhætt að fara. Gengið var um reynt að leggja mat á skemmdir á skógi og á raflínunni en þær voru allverulegar. Fljótlega barst styrkur úr Ræktunarsjóði Kinnarfells (Geirasjóði) fyrir hluta hans var keyptur áburður. Um miðjan júlí 2013 hófst svo uppgræðslan. Samkvæmt ráðleggingum skógfræðinga og sérfræðinga Landgræðslunnar, var lögð áhersla á að styrkja náttúrulega fræbanka með skriðunum með áburðargjöf. Marteinn Gunnarsson á Hálsi ók upp Fellið sunnan við Ystafell og svo norður brúnirnar, hann bar á í kringum skriðurnar eins og véltækt var. Í sömu ferð flutti hann upp ein 600 kg af blöndu af fræi og áburði, við í fjölskyldunni byrjuðum að sá efst í stóru skriðuna og í öll minni sárin – það var mikið gengið þann daginn.

Hrund, dóttir Erlu uppá Fellinu að sá.
Hrund, dóttir Erlu efst í skriðunni að sá, 2013.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Okkur langaði frá upphafi að gera þetta að samfélagsverkefni, ég fékk þá hugmynd að það gæti verið að Stórutjarnaskóli væri tilbúinn að nýta sér þetta sem námsverkefni, við gætum svo í staðinn styrkt ferðasjóð eða eitthvert það málefni sem kæmi skólanum vel. Ég hafði sambandi við Ólaf Arngrímsson skólastjóra og hann tók málinu afar vel og setti verkefnið undir styrka stjórn Agnesar Þórunnar Guðbergsdóttur sem er kennari við skólann og skógarbóndi.” sagði Erla Sigurðardóttir.

nemendur safna fræum
nemendur safna fræum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ánægðir nemendur með fræ í pokum
ánægðir nemendur með fræ í pokum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Strax í fyrrahaust fór hluti nemenda í Fellsskóg og söfnuðu birkifræum sem voru þurrkuð og geymd í kæli hjá Skógrækt ríkisins að Vöglum í vetur. Það eru nemendur í 6. 7. og 8. bekk sem fá að taka þátt í þessu uppgræðsluverkefni. Í haust fóru þau ásamt Agnesi Þórunni aftur á stúfana og í þetta skiptið í Vaglaskóg og tíndu heilmikið af fræi til viðbótar.

haframjöli blandað saman við fræ.
haframjöli blandað saman við fræ.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

fræum sáð af miklu kappi
fræum sáð af miklu kappi,,,,

 

 

 

 

 

 

 

 

samvinnan gekk mjög vel
,,,,og allir stóðu sig mjög vel.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þá var komið að sáningu. Þann 11. september var ekið út í Kinn með tvo dunka af þurrkuðu birkifræi auk nokkurra poka með nýtíndu fræi og einn poka af haframjöli. Þar beið Ólafur Ingólfsson í Hlíð hópsins, með áburð og fötur fyrir hvern og einn nemanda. Síðan var tekið til við að blanda saman áburði, birkifræi og haframjöli, sem var sett saman við til að dreyfa enn betur fræinu. Nemendur mynduðu síðan röð og sáðu fræi og áburði á suðurkant skriðunnar. ” Nemendur voru kappsfullir og stóðu sig vel, þrátt fyrir moldrok sem stóð af suðri. Fræið tók stundum óvænta stefnu langa leið til norðursÞ, en þetta gekk allt saman mjög vel” segir Agnes.

Landeigendur vilja koma á framfæri þökkum til Ræktunarsjóðs Kinnarfells (Geirasjóðs), Landbótasjóðs og Rarik vegna fjárstyrkja. Einnig vilja þau þakka starfsmönnum Landgræðslunnar á Húsavík og Skógræktarinnar, sem hafa verið afar hollráðir og Landgræðslan lagt til fræ. Sérstakar þakkir fá svo Ólafur Ingólfsson í Hlíð, Marteinn Gunnarsson Hálsi, nemendur, stjórnendur og kennarar við Stórutjarnaskóla sem hafa lagt þeim lið við vinnuna.

 

Myndin af Hrund er frá Erlu Sigurðar, hinar myndirnar tók Agnes Þórunn kennari.