Uppfærð veðurspá – Tilkynning frá Almannavörnum

0
79

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vekur athygli á uppfærðri spá Veðurstofunnar. Enn er gert ráð fyrir slæmu veðri víða um land. Allar spár gera ráð fyrir að lægðin verði 8 til 12 hPa grynnri en fyrri spár. Eins eru nýustu spárnar 1 til 3 gráðum kaldari, en á móti verður ekki veðurhæðin eins mikil, þannig að heildaráhrifin verða svipuð með tilliti til slyddu og snjókomu til fjalla. Frá þessu er sagt á vef Almannavarnar.

Almannavarnir

NA-land sleppur líklega sæmilega þar sem vindátt verður úr vestri og því ekki líkur á mikilli úrkomu, nema þá tímabundið seinnipart nætur aðfaranótt laugardags.

Gera má ráð fyrir að mesta úrkoman verði á Vestfjörðum á föstudagskvöld, en færist síðan yfir á Strandir og Húnavatnssýslur ásamt Skagafirði og vestanverðum Tröllaskaga. Ekki er gert ráð fyrir að miklar breytingar verði úr þessu, en litlar breytingar á braut lægðarinnar getur valdið miklum breytingum eftir landshlutum. Eins má búast við að vindhraði geti náð 13-20 metrum um landið vestanvert með kalsa rigningu og slyddu til fjalla og er fólk hvatt til að huga að lausamunum hjá sér.

Um er að ræða óveðurslægð sem spáð er að dýpki mjög hratt en ennþá er nokkur óvissa um hvar lægðarmiðjan verður síðdegis á morgun og hefur það nokkur áhrif um hvar veður verður verst, þannig að full ástæða fyrir íbúa á norðan- og vestanverðu landinu að vera við öllu búnir.

Spáð er mikilli rigningu á Vestur-, Suðvestur-, Suður- og Suðausturlandi seint á fimmtudag og fram yfir hádegi á föstudag. Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og þar gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 100 mm.  Varað er við vexti í ám á Snæfellsnesi, á Hvítársvæðinu (bæði vestur- og suður af Langjökli), kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Vöð yfir ár á þessum svæðum geta orðið varhugaverð.

Gera má ráð fyrir slyddu eða snjókomu á heiðum og fjallvegum, og eru vegfarendur og ferðalangar hvattir til að kynna sér færð á vef Vegagerðarinnar, í upplýsingasíma 1777, sjálfvirkum símsvara 1779 og/eða í textavarpi RUV.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist áfram með framvindunni í samvinnu við Veðurstofuna og miðlar upplýsingum áwww.almannavarnir.is og á facebook síðu deildarinnar https://www.facebook.com/Almannavarnir