Uppalinn í skóginum

0
103

Rúnar Ísleifsson skógverkfræðingur tók við starfi skógarvarðar Skógræktar ríkisins á Norðurlandi 1. apríl af Sigurði Skúlasyni sem gegnt hafði embættinu í 27 ár. Aðalstöðvar embættisins eru á Vöglum í Fnjóskadal. Í dalnum eru miklir skógar og þeirra frægastur Vaglaskógur, einn stærsti náttúrlegi birkiskógur landsins. Skógar sem Skógrækt ríkisins hefur umsjón með eru kallaðir þjóðskógar og Vaglaskógur var einn þeirra skóga sem stofnunin fékk í vöggugjöf þegar hún hóf formlega starfsemi 1. desember 1908. Frá þessu og fleira er sagt frá í grein á Skógur.is

Runar Ísleifsson
Rúnar Ísleifsson. Mynd af skogur.is

Man eftir brunanum ‘66

Rúnar kannast vel við sig í Vaglaskógi enda ólst hann þar upp og er af skógarmannaættum. Faðir hans, Ísleifur Sumarliðason, var skógarvörður á Vöglum á árunum 1949-1987, og kynntist þar konu sinni og móður Rúnars, Sigurlaugu Jónsdóttur. Skógarvarðarhúsið sem Rúnar flytur nú í ásamt konu sinni og tveimur ungum sonum var upphaflega reist 1961, ári áður en Rúnar fæddist. Það brann árið 1966 og segist Rúnar muna vel eftir brunanum. Hann hafi verið borinn út úr brennandi húsinu en laumast burt og verið gripinn þar sem hann ætlaði inn um kjallaradyr, líklega til að bjarga einhverju af dótinu sínu. Svipað hús var reist á sama grunni og þar er nú unnið að endurbótum áður en nýja skógarvarðarfjölskyldan flytur inn.

Göngin auka umferð í skóginn

Með Vaðlaheiðargöngum býst hann við að Vaglaskógur verði enn fjölsóttari áningarstaður og útivistarsvæði enda verða ekki nema um 17 kílómetrar þangað frá Akureyri. Rúnar er sjálfur mikill útivistarmaður og telur ekki útilokað að Vaglaskógur verði nýttur meira yfir vetrartímann til skíðaiðkunar þegar göngin opnast. Hvort boðið verður upp á troðin spor eða ekki sé spurning um peninga og mannskap en í það minnsta verði að sjá til þess að fólk komist í skóginn og geti lagt bílunum sínum á bílastæði. Hvað sem því líður býður Vaglaskógur upp á frábæra möguleika til skíðagöngu.

Lesa allt viðtalið hér.