Unnið að endurnýjun á gömlu Gufustöðinni í Bjarnarflagi

0
308

Um þessar mundir er unnið að endurnýjun vélbúnaðar í gömlu Gufustöðinni í Bjarnarflagi, sem þjónað hefur íbúum og rekstraraðilum við Mývatn frá árinu 1969. Þó svo að gamla stöðin hafi gefi mikið eftir hefur hún í gegnum tíðina aukið rafmagnstiltæki í Mývatnssveit umfram það sem ella hefði verið, ekki síst eftir að jarðstrengir voru lagðir í sveitinni fyrir nokkrum árum síðan. Frá þessu segir á vef Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur samið við breska fyrirtækið Green Energy Geothermal (GEG) um smíði og uppsetningu á nýjum vél- og rafbúnaði og hefur verið unnið að framleiðslu búnaðar nú í vetur. GEG byggir á íslensku hugviti og hefur reist fjölda lítilla jarðvarmavirkjana í Kenía undanfarin 5 ár.

Framkvæmdir á verkstað eru nú að hefjast og er tilhögun þeirra miðuð við að ekki verði truflun á tengdri starfsemi á svæðinu, sem snertir einkum rekstur hitaveitu Skútustaðahrepps og afhendingu vatns til Jarðbaðanna í Mývatnssveit.

Ekki hefur verið ákveðið hvað gert verður við gamla vélbúnaðinn, sem er upphaflega smíðaður árið 1934 og á sér því merka sögu.  Fyrst um sinn verður hann geymdur í skemmu Landsvirkjunar á svæðinu en áhugi stendur til að búnaðurinn verði hafður til sýnis í framtíðinni, sem vélbúnaður fyrstu jarðvarmarafstöðvarinnar á Íslandi.