Ungmennaskipti EUF

0
132

Unglingadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Náttfari á Húsavík og Mývargar í Mývatnssveit tóku sig saman og tóku á móti unglingum frá Neumarkt í Þýskalandi en þau eru félagar í þýskum vatnabjörgunarsamtökum sem heita DLRG. Í heildina voru þetta 35 unglingar auk umsjónarmanna.

Unglingarnir við Dettifoss. Mynd: Pétur Bjarni Gíslason
Unglingarnir við Dettifoss. Mynd:Pétur Bjarni Gíslason

Þema skiptanna var „Sjálfboðastarf í þágu samfélagsins“. Aðalmarkmiðið var að unglingarnir kynntust hver öðrum og gerðu sér grein fyrir hvað starf sjálfboðaliðans er mikilvægur þáttur í samfélaginu. Undirmarkmin voru að byggja upp sjálfstæða einstaklinga sem eru tilbúnir til að vinna samfélaginu gagn í sjálfboðavinnu, læri að bjarga sér og öðrum við erfiðar aðstæður og geti tekið réttar ákvarðanir á réttum tíma. Einnig að vinna sem ein heild í hópi, koma skoðunum sínum á framfæri og hlusta á skoðanir annarra. Kynnast og virða menningu annarra þjóða. Samskiptin fóru fram á ensku þar sem Íslendingarnir skildu ekki þýsku og Þjóðverjarnir skildu ekki íslensku og fyrir vikið varð þetta enn flóknara.

Til að ná þessum markmiðum var sett saman metnaðarfull dagskrá. Þess var gætt að flétta saman fræðslu og skemmtun. Byrjað var á ýmsum leikjum til að hrista unglingana saman, láta þá hafa verkefni sem þeir þurftu að leysa í sameiningu um leið og þeir fræddust um Húsavík. Þá var það sjórinn. Þar kynntust þeir því hvernig harðbotna björgunarbátur er notaður, farið var í siglingu um Skjálfandaflóann og siglt eftir áttavita en það reyndist flóknara en flestir gerðu sér grein fyrir. Meðan á þessu stóð stukku hvalirnir í kringum okkur við mikla hrifningu.

Verið að stökkva í sjóinn í Húsavíkurhöfn. Mynd: Pétur Bjarni Gíslason.

Auðvitað stukku svo allir í sjóinn og svömluðu þar undir eftirliti björgunarsveitamanna. Nú var Vatnajökulsþjóðgarður kynntur fyrir krökkunum, ekið var í Ásbyrgi, Vesturdal og að Dettifossi. Í Mývatnssveit var gengið á Leirhnjúk auk þess sem Grjótagjá og Stóragjá voru skoðaðar. Menn spreyttu sig á spottaæfingum við ýmsar aðstæður og fóru yfir og öryggi við sig og klifur ásamt viðbrögðum við brunaslysum. Þá lá leiðin í Kverkfjöll þar sem unglingarnir lærðu heilmikið um hvernig á að haga sér á jökli t.d. að ganga á broddum, nota ísaxir, fara í ísklifur, ganga eftir áttavita og síðast en ekki síst að klæða sig rétt. Á heimleiðinni var svo komið við í Öskju og synt í Víti. Að lokum fóru svo allir til síns heima alveg dauðþreyttir eftir viðburðaríka daga.

Unglingarnir voru saman í 9 daga og var einstaklega gaman að sjá hvernig þessir 3 hópar þéttust smám saman og urðu að lokum einn samheldinn hópur, duglegir að hjálpa hver öðrum og vinna sem ein heild.

Að ári munum við heimsækja Þjóðverjana og styrkja þessi vinarbönd sem hafa myndast og það er okkar von að þessi bönd haldi og verði enn betri þegar fram líða stundir.

Það er augljóst að svona ungmennaskipti hvetja unglingana enn frekar til þátttöku í heilbrigðu starfi unglingadeildana, þau verða víðsýnni, jákvæðari og öflugri einstaklingar til að takast á við lífið framundan.

Það kostar mikla fjármuni og vinnu að taka þátt í svona ungmennaskiptum. Tímanum sjáum við ekki eftir, honum er vel varið í að byggja upp æsku landsins. Fjármunirnir komu frá „Ungt fólk í Evrópu”, fyrirtækjum og einstaklingum. Við þökkum öllum sem aðstoðuðu við þetta verkefni hvort sem það var með fjármunum, vinnu, efni eða á annan hátt.

Pétur Bjarni Gíslason og Sigrún Þórólfsdóttir.

Kristófer Reykjalín Þorláksson að klifra upp úr íssprungu og Anton Freyr Birgisson tryggir hann. Mynd: Pétur Bjarni Gíslason.