Ungmennafélagið Geisli stillir upp meistaraflokksliði í 4. deildinni í knattspyrnu í sumar

0
931

Ungmennafélagið Geisli í Aðaldal mun stilla upp meistaraflokksliði karla í knattspyrnu í sumar og hefur liðið verið skráð til keppni í 4. deildinni sem hefst síðustu helgina í maí. Einn af liðsmönnum Geisla, Hrannar Guðmundsson, sagði í spjalli við 641.is að þessi hugmynd að spila í 4. deildinni í sumar hefði kviknað sl. haust og veturinn hefði verið nýttur til undirbúnings. Dregið var í fjóra riðla í gær í 4. deildinni og dróst lið Geisla í C-riðil ásamt 6 öðrum liðum sem koma öll af höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan lið Kormáks/Hvatar frá Hvammstanga. Ekki er búið að fastsetja leikdaga.

Íslandsmeistara Geisla í 3. flokki, 7 manna lið 2014. Aftari röð f.v. Guðjón Vésteinsson, Kristján Ingvarsson, Elvar Rúnarsson, Halldór Logi Árnason og Björgvin Viðarsson, þjálfari. Fremri röð f.v. Sindri Már Kristinsson, Lárus Sverrisson, Jónas Þór Viðarsson, Þór Kárason og Böðvar Jónsson.
Íslandsmeistara Geisla í 3. flokki, 7 manna lið 2004. Aftari röð f.v. Guðjón Vésteinsson, Kristján Ingvarsson, Elvar Rúnarsson, Halldór Logi Árnason og Björgvin Viðarsson, þjálfari. Fremri röð f.v. Sindri Már Kristinsson, Lárus Sverrisson, Jónas Þór Viðarsson, Þór Kárason og Böðvar Jónsson.

Þjálfarar liðsins verða þeir Guðmundur Jónsson (Fagraneskoti) og Jón Þormóðsson (frá Ökrum), en þeir spiluð knattspyrnu á árum áður með UMF Tjörnes og HSÞ-b. Flestir liðsmenn Ungmennafélagsins Geisla koma úr Aðaldal, Reykjadal, Reykjahverfi og Mývatnssveit og að sögn Hrannars hefur liðið á að skipa um 30 manna leikmannahóp. Heimavöllur UMF Geisla verður knattspyrnuvöllurinn við Ýdali og þegar vorar verður hafist handa við að undirbúa völlinn fyrir komandi keppnistímabil.

Spiluð verður tvöföld umferð í 4. deildinni, heima og að heiman og verða því spilaðir sex leikir á Ýdalavelli í sumar. Hrannar sér fram á mikil ferðalög í útileikina þar sem sex lið eru af höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Hrannars er búið að afla einhverra fjárstyrkja til að standa straum af hluta kostnaðar.

Engir útlendirnar verða í liði Geisla í sumar og fáir leikmenn liðsins hafa spilað leiki í meistaraflokki. Geisli hefur þó fengið Snæþór Hauk Sveinbjörnsson að láni frá Völsungi fyrir sumarið og Sigurður Óli Guðmundsson hefur spilað meistaraflokksleiki áður. Aldursforseti liðsins verður Sigmundur Birgir Skúlason. Æfingar eru hafnar og fara þær fram á KA vellinum á Akureyri og búningakaup eru í vinnslu. Hrannar vonaðist til að Geisli fengi nokkra æfingaleiki í apríl í Boganum á Akureyri, en það væri óljóst á þessari stundu.

Íslandsmeistarar 2004

Geisli hefur einu sinni unnið Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu. Það var árið 2004 en þá sigraði lið Geisla á Íslandsmóti 7 manna liða í 3. flokki karla. (Sjá mynd hér að ofan). 641.is er ekki kunnugt um hvort einhverjir leikmenn úr því liði, spili með liðinu í 4. deildinni í sumar.

Geisli bikarmeistari HSÞ 1977
Geisli bikarmeistari HSÞ 1977

Þetta verður í fyrsta skipti sem Ungmennafélagið Geisli skráir meistaraflokkslið karla í knattspyrnu til keppni í 4. deildinni undir eigin nafni. Magni á Grenivík og Völsungur á Húsavík hafa verið með lið í meistaraflokki karla í knattspyrnu áratugum saman en önnur félög í Suður-Þingeyjarsýslu hafa stundum teflt fram liðum með misjöfnum árangri í gegnum tíðina. HSÞ-b og Ungmennafélagið Tjörnes voru með lið í neðstu deild í nokkur ár, á árum áður og komst Tjörnes liðið tvisvar í úrslit neðstu deildar, en tókst ekki að vinna sig upp um deild.

 

UMF Efling hefur sent lið til keppni í neðstu deild tvisvar undir sínu nafni. Árið 1987 spilaði svo sameiginleg lið Geisla og Eflingar sem fékk nafnið HSÞ-c í neðstu deild og komst í úrslitakeppnina það ár eftir sigur í sínum riðli. Þjálfari þess liðs var Aðalsteinn Árni Baldursson. Einnig spilaði lið HSÞ-b, sem skipað var knattspyrnumönnum úr Aðaldal, Reykjadal og Mývatnssveit í 4. deildinni í tvö ár í röð, fyrir um áratug síðan.

Mynd frá fótboltaæfingu 1982
Mynd frá fótboltaæfingu 1982

 

Að sögn Hrannars verður fljótlega opnuð Facebook-síða þar sem áhugasamir geta fylgst með liðinu og þar verður sagt frá úrslitum úr leikjum sumarsins.

641.is mun fylgjast með gengi liðsins og hvetur heimafólk til að fjölmenna á heimaleiki liðsins að Ýdölum og eftir atvikum á útileikina.

Ókeypis verður á alla heimaleiki Geisla í sumar.

 

(Meðfylgjandi myndir eru skannaðar og því ekki í miklum gæðum)