Unglingalandsmótið í Borgarnesi – Upplýsingar fyrir keppendur

0
137

Kæru Þingeyingar. Við hjá HSÞ viljum vekja athygli ykkar á Unglingalandsmóti UMFÍ sem er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er árlega um verslunarmannahelgina. Í ár verður mótið haldið í Borganesi dagana 28. – 31. júlí þar sem er góð keppnisaðstaða fyrir allar greinar og boðið uppá skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna. Í ár bjóðum við krakka fædda árið 2005 og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin að slást með í för.

Unglingalandsmót UMFÍ - auglýsingKeppnisrétt hafa allir á aldrinum 11 – 18 ára en einnig eru í boði ýmis verkefni fyrir 10 ára og yngri. Mótsgjald fyrir keppendur HSÞ er niðurgreitt af héraðssambandinu og er því aðeins kr. 4.000.- og geta keppendur keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja. Keppnisgreinar í ár eru 14 talsins, sjá nánar á www.ulm.is. Skráningafrestur er til 23. júlí.

HSÞ verður með veislutjaldið sitt á tjaldsvæði HSÞ og verður þar heitt á könnunni og bakkelsi sem foreldrar koma með í púkkið. Þar verða afhent mótsgögn og ýmsar upplýsingar sem tengjast mótinu. Á föstudagskvöldinu fer fram skrúðganga og fá keppendur í ár ennisbönd merkt HSÞ og nafni sínu.

Til að auðvelda utanumhald um áprentun bandanna eru foreldrar hvattir til að ganga frá skráningu sem fyrst eða fyrir 18. júlí sé þess nokkur kostur.

Ennisböndin eru gefin af Ferðaþjónustunni Narfastöðum, Dalakofanum, Framsýn, Landsbankanum, Langanesbyggð, BJ vinnuvélum, Ísfélaginu og Skóbúð Húsavíkur.

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna í síma: 896-3107 eða á netfanginu hsth@hsth.is.
Unglingalandsmótsnefnd HSÞ