Umræðuvettvangur ? Aðalsteinn Már Þorsteinsson skrifar

0
423

Nú standa yfir samræðufundir íbúa um fyrirhugaða kosningu um
sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Af því tilefni set ég hér
niður nokkur atriði á blað í þeim tilgangi að kveikja umræðu um framtíð í
skólamálum. Starfshópur á vegum sveitarstjórnanna setur fram í samantekt
sinni að til framtíðar skuli sameinað sveitarfélag, ef af verður, reka öfluga
skóla sem veiti góða þjónustu, með menntaða kennara og góða
stjórnendur. Hverjum skóla fyrir sig er ætlað að nýta sína styrkleika og þá
tækni sem í boði er. Þá á að efla samstarf milli skólanna og félagslega
möguleika barna og bendir nefndin á að tækifæri kunni að felast á því sviði
sem og í aukinni notkun ýmissa tæknilausna í fjarkennslu. Sérstaklega er
tekið fram að staðsetning skólanna skuli áfram vera sú sem hún er í dag og
bendir nefndin sérstaklega á að ein þeirra neikvæðu afleiðinga sem gæti
orðið í kjölfær sameiningar sé að skóli glatist. Sú leið sem nefndin leggur til,
svo komast megi hjá því, er að efla enn frekar skólana og auka samstarf
þeirra á milli. Á nýafstöðnum íbúafundi um málefnið reifaði ég aðeins þau
atriði sem ég kem inn á hér en umræður á fundinum um framtíð í
skólamálum voru óverulegar og var almennt samrómur um niðurstöður
starfshópsins. Mér finnast þær nokkuð almennar, góðar og fyrirsjáanlegar
en spyr mig um leið hvort þær séu raunhæfar. Er framtíð í þessari sýn eða er
hún bara draumsýn?

Í lok samantektar sinnar bendir starfshópurinn á nokkur atriði sem beri að
varast og eitt af því er fólksfækkun. Hér er auðvitað komin kjarni málsins og
grundvallar forsenda í því hvaða stefnu er skynsamlegast að taka.
Fólksfækkun hefur almennt verið viðvarandi vandamál í dreifbýli til langs
tíma, það er vel þekkt og báðar sveitarstjórnir vinna ötullega að því að
halda uppi þjónustustigi, bæta búsetuskilyrði, tryggja íbúðarhúsnæði,
greiða fyrir atvinnuuppbyggingu og gera allt annað það sem talið er að
geti haft jákvæð áhrif á íbúaþróun. Þetta er stóra síbreytilega verkefnið þar
sem allt helst í hendur. Það þarf bara skóla ef til staðar eru börn – það þarf
góða og öfluga skóla til að laða að barnafjölskyldur.

Að „glata“ skóla er ekkert grín og öll þekkjum við fjölmörg dæmi þess
hversu erfið slík ferli hafa reynst mörgum samfélögum. Oftast er reynt fram í
lengstu lög að halda í skólann og börnin oft orðin æðifá þegar loks er horft
framan í þá staðreynd að betra sé fyrir börn að sitja lengur í skólabíl og fá
fleiri félaga í staðinn en að vera svo fá. Þau eru færri tilvikin þar sem horfst
er tímanlega í augu við staðreyndir sem blasa við en svo eru skólar líka
stundum sameinaðir á öðrum forsendum og því hefur auðvitað sjálfsagt
aldrei verið svarað almennilega hvaða þætti beri að meta þegar horft er til
þess á hvaða tímapunkti rétt sé að gera breytingar. Fjöldi barna sem eru til
staðar er auðvitað bara einn af fjölmörgum þáttum sem þó hlýtur að þykja
eðlilegt að skoða þegar maður veltir fyrir sér forsendunum. Auk þess hlýtur
að hafa áhrif framboð á starfsfólki og gæði skólastarfsins. Sem innlegg inn í
umræðuna um framtíð í skólamálum þætti mér t.d. áhugavert að okkur
hefðu verið útvegaðar einhverjar tölur byggðar á núverandi gögnum og
spá um búsetuþróun út frá síðustu árum og hóflegum væntingum.
Takmarkað er hægt að gera við þau gögn sem eru í skýrslunni en ég ætla
þó að setja fram einfalt reikningsdæmi út frá þeim: Ég ætla að gefa mér að
helmingur nemenda í hverjum grunnskóla útskrifist á næstu 5 árum. Að í
leikskólum séu öll börn sem búa í sveitarfélaginu í 5 árgöngum og þau að
þeim loknum komin upp í grunnskóla. Að engin börn flytji úr eða í
sveitarfélaginu á næstu 5 árum (menn geta þá bætt við eða dregið frá eins
og þeim finnst raunhæft – það er alls staðar verið að bæta við húsnæði, svo
vonandi á okkur bara eftir að fjölga).

 Í Stórutjarnaskóla eru 37 nemendur og 7 leikskólanemendur.
Útskriftir á næstu 5 árum: 37/2 = 18
Grunnskólanemendur eftir nokkur ár: 26.

 Í Þingeyjarskóla eru 70 nemendur og 25 leikskólanemendur.
Útskrift á næstu 5 árum: 70/2 = 35
Grunnskólanemendur eftir nokkur ár: 60.

 Í Reykjahlíðarskóla eru 37 nemendur og 18 leikskólanemendur.
Útskrift á næstu 5 árum: 37/2 = 18
Grunnskólanemendur eftir nokkur ár: 37

Ég ítreka að þetta er mikil einföldun en getur kannski engu síður vakið til
umhugsunar þegar við veltum því fyrir okkur hvaða framtíðarsýn sé
skynsamlegt að hafa í skólamálum. Hjálplegt getur líka verið að velta þessu
fyrir sér út frá því í hversu stóru mengi foreldrar óska sér að barnið vaxi upp
og þroskist við. Barn þarf vissulega ekki endilega að umgangast bara
jafnaldra sína og kannski er það mis mikilvægt fyrir börn eftir því á hvaða
aldursskeiði þau eru. Þannig verður auðvitað líka hvert foreldri að svara fyrir
sig hvort því finnst ákjósanlegt að barnið umgangist daglega í skóla 1-2
jafnaldra eða 5-6. Svo er auðvitað ekki alltaf allt fengið með fjölda.
Það væri mjög ákjósanlegt að þurfa ekkert að velta þessu fyrir sér. Best væri
ef nemendum myndi bara sífellt fjölga við skólana.

 En hvað viljum við gera ef þeim fækkar og hvenær?

 Gætu falist einhver tækifæri í framtíðinni önnur en þau að reka þessa 3
skóla eins og þeir eru, þar sem þeir eru? Eigum við að ræða það?

 Ímyndaðu þér að staðan verði þannig eftir 5 ár að nauðsynlegt sé að
gera breytingar þrátt fyrir að þú viljir það alls ekki. Hvað væri skást,
skynsamlegast og raunhæft að gera (bannað að leysa vandann með því
að klóna börn)? Hvernig líður þér með að sjá það fyrir þér gerast?

 Er staðan þannig í skólamálum í dag og horfurnar þannig að betra sé að
gera eitthvað strax, þó það kunni að vera sársaukafullt, frekar en að
bíða?

 Hvað finnst þér?

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Höfundur er íbúi í Þingeyjarsveit til 20 ára
en á ekki lengur nein börn á leik- eða grunnskólaaldri