Komið er að 5. umhverfis- og lýðheilsuþingi Stórutjarnaskóla, en það verður haldið á sal skólans miðvikudaginn 19. febrúar nk. Þingið hefst kl 13:15 og stendur til kl 15:15. Nemendur skólans verða í fararbroddi að venju, en þeir munu kynna niðurstöður stuttrar rannsóknar sem þeir gerðu nýverið á hreyfingu, bóklestri og skjánotkun barna og fullorðinna á skólasvæðinu. Þá munu þeir einnig skemmta viðstöddum með söng og hljóðfæraslætti.
Aðal fyrirlesari þingsins verður Sigrún Helgadóttir sem m.a. var ritstjóri rits um sjálfbærni í ritröð um grunnþætti í nýjustu aðalnámskrá. Hennar erindi mun fjalla um hugtakið sjálfbæra þróun, en þar er úrlausnarefnið að allt fólk á Jörðinni geti búið við ásættanleg lífsgæði samtímis því að náttúrulögmál séu virt og auðlindum viðhaldið svo að komandi kynslóðir fái einnig búið við mannsæmandi aðstæður, rétt eins og við gerum í dag. Síðast en ekki síst mun fulltrúi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar gera grein fyrir stöðu sorpmála og flokkunar í sveitarfélaginu.
Þingið er öllum opið og er full ástæða til að hvetja sem allra flesta til að koma og hlusta á athyglisverða fyrirlestra um málefni sem vissulega varða okkur öll.