Umhverfis- og lýðheilsuþing í Stórutjarnaskóla

0
238

Þriðjudaginn 5. apríl kl 13:10 til kl. 15:00 stóðu nemendur og starfsmenn Stórutjarnaskóla í 7. skipti fyrir umhverfis- og lýðheilsuþingi í skólanum. Nemendur skólans voru í mikilvægum hlutverkum að venju, með hljóðfæraleik, söng og glærukynningum. Þeir sungu af hjartans list við undirleik Jaan Alavere tónlistarkennara og Kötlu Maríu Kristjánsdóttur nemanda á bassa. Frá þessu segir á vef Stórutjarnaskóla

Nemendur syngja fyrir gesti þingsins. Mynd: JRH
Nemendur syngja fyrir gesti þingsins. Mynd: JRH

Við upphaf þingsins var Skólasöngurinn sunginn, lag eftir Jaan við ljóð Anítu Þórarinsdóttur fyrrum kennara í skólanum. Eftir hlé flutti kórinn lagið Ákall, lag eftir Ralph Siegel og ljóðið eftir Jónbjörgu S. Eyjólfsdóttur. Þingið endaði síðan á því að allir sungu saman lagið gamla og góða; Lóan er komin, sem er amerískt þjóðlag við ljóð Páls Ólafssonar. Nemendur sungu virkilega vel og skemmtilega, meðal annars sungu Dagbjört Jónsdóttir og Eyþór Kári Ingólfsson tvísöng.
Fyrst á dagskrá var kynning nemenda í umhverfis- og lýðheilsunefndinni á niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var í janúar og febrúar s.l., en þá vigtuðu nemendur skólans í fjórar vikur allar matarleifar nemenda og starfsfólks skólans. Hugmyndin kviknaði á fundi í nefndinni í tengslum við umræðu um matarsóun í heiminum. Það er skemmst frá því að segja að niðurstöður voru þær að þessa daga var aðeins hent um 14 kg eða 2,7% þess matar sem framreiddur var, sem er mjög lítið miðað við aðrar tölur sem vitað er um. En tekið skal fram að mjög litlar upplýsingar eru til um matarsóun á Íslandi. Engu að síður komumst við að því að fyrir þá upphæð sem lá að baki þeim 14 kg, sem hænur fengu fyrst og fremst að njóta, hefði mátt kaupa 2 nýjar fartölvur ef framreiknað var fyrir árið.

Brynhildur Bjarnadóttir
Brynhildur Bjarnadóttir

Aðal-fyrirlesari var Brynhildur Bjarnadóttir lektor við Háskólann á Akureyri en hún flutti mjög greinargott og fræðandi erindi sem hún kallar; Undur náttúrunnar – maðurinn, plönturnar og loftslagið. Nemendur á öllum aldri fylgdust með af áhuga sem og aðrir sem í salnum voru.

Eftir hlé þar sem boðið var upp á drykki og ávexti flutti Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar tölu og spjallaði við nemendur um það fyrirkomulag sorpmála sem innleitt verður í sveitarfélaginu á árinu. Hann benti börnunum á að þeirra hlutverk væri að aðstoða foreldra, afa og ömmur við þetta vandasama verkefni þegar að því kæmi. Það styttist í að framkvæmdir á gámasvæði geti hafist í nágrenni skólans og þegar það verður tilbúið mun koma til kasta íbúanna. Þess má geta að umhverfis- og lýðheilsunefnd skólans ákvað að leggja sitt af mörkum við innleiðingu flokkunar og útbjó lítinn bækling með flokkunarreglum sem í gildi munu verða samfara þessum breytingum.

Sá bæklingur var lagður fram á þinginu og mun verða sendur heim með foreldrum innan tíðar.

Arnór Benónýsson. Mynd: JRH
Arnór Benónýsson. Mynd: JRH

Að lokum fjallaði Sigrún Jónsdóttir um vistheimt og hugsanlega þátttöku skólans í verkefni í samstarfi við Landvernd og Landgræðslu ríkisins. Vistheimt er endurheimt hnignaðra vistkerfa eða með öðrum orðum, aðgerðir til að reyna að gera gróðurlaus landssvæði og mýrar aftur eins og þau voru einu sinni. Þetta er m.a. mikilvægur þáttur í mótvægisaðgerðum gegn hraðfara loftslagsbreytingum. Í september á síðasta ári fengu kennarar í Stórutjarnaskóla stutt námskeið á vegum Landverndar og Landgræðslunnar og fræðslu um skólaverkefni um endurheimt vistkerfa (vistheimt) sem Landvernd vinnur að í samstarfi við Landgræðsluna og þrjá skóla á Suðurlandi. Til að skólinn geti gerst þáttakandi í þessu rannsóknarverkfni þarf heppilegan landsskika og er málið í skoðun.

Jónas Reynir Helgason tók meðfylgjandi myndir og fleiri myndir sem Jónas tók má skoða hér.

Ólafur Arngrímsson skólastjóri Stórutjarnaskóla: Mynd: JRH
Ólafur Arngrímsson skólastjóri Stórutjarnaskóla: Mynd: JRH
Gestir umhverfisþingsins. Mynd: JRH
Gestir umhverfisþingsins. Mynd: JRH