Umferðin yfir Víkurskarð jókst um 10,3% í nýliðnum mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Þetta er rétt tæplega tvöföld meðaltalsaukning í september milli áranna 1998 – 2016. Umferðin í nýliðnum mánuði var samt. 2.314 (ökut/sólarhring). Með hóflegri aukningu, frá 4 – 5%, í þeim mánuðum sem eftir eru af árinu 2017 verður meðalumferðin (ÁDU) yfir skarðið 1.800 (ökut/sólarhring). Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Athyglisvert er að meðalumferðin um Hvalfjörð var rétt rúmlega 1800 (ökut/sólarhring) síðasta heila árið fyrir opnum Hvalfjarðarganga.
Umferðartalning var framkvæmd í Hvalfirði árið 1997, árið áður en Hvalfjarðargöng opnuðu. Talið var í 356 daga nálægt Hvalfjarðarbotni og það er því marktækasta mælingin sem til er fyrir opnun Hvalfjarðarganga. ÁDU umferðin reyndist vera 1866 bílar á sólarhring, sem er litlu meiri en ÁDU um Vkurskarðið stefnir í að vera á þessu ári.
Árið í ár er síðasta árið sem Víkurskarðið er aðalleið milli Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðar og er því vel samanburðarhæft við mælinguna í Hvalfirði árið 1997.