Tveir Þingeyingar í U-20 ára landsliðinu í körfubolta

Snorri Vignisson frá Húsavík er líka í U-20 ára liðinu

0
596

Góður árangur Trygga Snæs Hlinasonar körfuboltamanns úr Bárðardal hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að undanförnu sem á annað borð fylgjast með körfubolta. Tryggvi er búinn að spila tvö keppnistímabil með Þór á Akureyri og er nýbúinn að skrifa undir samning við besta körfuboltalið Spánar, Valencia og fer þangað í haust.

En Tryggvi er ekki eini Þingeyingurinn sem gerir það gott með U-20 ára landsliði Íslands í körfubolta, því Snorri Vignisson frá Húsavík (sonur Vignis Siguróla dýralæknis) er liðsfélagi Tryggva í U-20 ára liði Íslands og fer Snorri með liðinu til Krítar til að taka þátt í A-deild Evrópumótsins í körfubolta í sumar.

Snorri, sem spilar með Breiðablik í næst efstu deild hér heima, tók þátt í æfingamótinu sem nú er nýlokið og skoraði hann 15 stig í leikjunum þremur, gegn Svíþjóð, Ísrael og Finnlandi.

Snorri hefur áður spilað með U-20 ára landsliði Íslands en hann ásamt Tryggva, tóku þátt í  Evrópumóti FIBA í Grikklandi í fyrra, en þar kom lið Íslands verulega á óvart og fór í úrslitaleikinn gegn Svartfjallalandi sem tapaðist naumlega.

A-deild Evrópumótsins í körfubolta fer fram dagana 15-23. júlí á Krít og geta því Þingeyskir körfuboltaáhugamenn fylgst með tveim Þingeyingum á því móti.