Tveir andarungar fundust í maga urriða úr Mývatni

0
177

Græðgi urriðans á sér fá takmörk, en í dag veiddu þau Kolbrún Ívarsdóttir og Einar Jónsson á Sjónarhóli í Mývatnssveit 7 punda urriða í net við Syðri-Hamarinn í Mývatni og þegar gert var að honum kom í ljós að í hans síðustu máltíð hafði hann fengið sér tvo andarunga.

Andarungarnir tveir sem var síðasta máltíð urriðans. Mynd: Kolbrún Ívarsdóttir
Andarungarnir tveir. Mynd: Kolbrún Ívarsdóttir

 

Andarungarnir voru frekar smáir og sagði Einar Jónsson að þeir væru um 7-9 cm langir og líklega mjög nýlega skriðnir úr eggi.

Kolbrún og Einar hafa stundað veiðar í Mývatni í áraraðir og aldrei fundið andarunga í maga urriða áður, en hafa þó heyrt af þessu mataræði urriðans.

Þessar matarvenjur urriðans er þekktar en þó er ekki algengt að veiða urriða sem leggur sér fiðurfénað til munns.

Hægt er að smella á myndina til að skoða stærri útgáfu.