Tunglferja í fullri stærð byggð á Húsavík

0
180

Á blaðamannafundi í Könnunarsögusafninu á Húsavík í gær, kynnti safnstjórinn Örlygur Hnefill Örlygsson, ýmsa viðburði sem eru í gangi og í bígerð hjá þessu sívaxandi safni en hróður þess hefur borist víða um heim. Þarna var upplýst um þá sem fengu “The Leif Erikson Exploration Awards 2015”, sem safnið afhenti í fyrsta sinn en verður árviss atburður. Frá þessu segir á Dagskráin.is sem er nýr fréttavefur á Akureyri sem opnaði í gær.

Frá blaðamannafundinum í gær. Fv. Marina Rees, úr verkefnisstjórn  Explorers Festival á Húsavík 2016,Örlygur Hnefill Jónsson, formaður stjórnar safnsins, Arnar Ómarsson, listrænn stjórnandi Explorers Festival á Húsavík 2016 og Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri. Mynd: 640.is
Frá blaðamannafundinum í gær. Fv. Marina Rees, úr verkefnisstjórn Explorers Festival á Húsavík 2016,Örlygur Hnefill Jónsson, formaður stjórnar safnsins, Arnar Ómarsson, listrænn stjórnandi Explorers Festival á Húsavík 2016 og Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri. Mynd: 640.is

Stór alþjóðleg könnunarhátíð, Húsavík Explorers Festival, fer fram í september 2016 og samanstendur af fyrirlestrum, kvikmyndasýningum, listsýningum og tónleikum, en þema hátíðarinnar er könnun í sinni víðustu mynd. Heimsþekktir landkönnuðir og geimfarar verða meðal gesta auk þjóðþekktra listamanna.

Og síðast en ekki síst var upplýst að sumarið 2019, þegar 50 ár verða liðin frá fyrstu tungllendingunni, mun opna ný viðbygging við safnið sem meðal annars mun hýsa eftirlíkingu af tunglferju í fullri stærð, en slíkar eftirlíkingar eru til sýnis í nokkrum söfnum í Bandaríkjunum og í einu safni í Bretlandi og draga að fjölda gesta. Er þetta verkefni unnið í samstarfi við geimfara sem flogið hafa tunglferjum meðan Apollo verkefnið var í gangi. Bygging tunglferjunnar hefst á næsta ári á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Skarpi sem kom út í dag.

Könnunarverðlaun Leifs Eiríkssonar veitt í fyrsta sinn