Tryggvi Snær valinn í úrvalslið Evrópumótsins U-20 ára

0
395

Bárðdælingurinn Tryggvi Snær Hlinasson var valinn í fimm manna úrvalslið Evrópumóts undir 20 ára karla nú í kvöld um leið og verðlaunaafhendingin fór fram. Tryggvi var frábær á mótinu, skilaði 16 stigum, 12 fráköstum, 2 stoðsendingum og 3 vörðum skotum að meðaltali í þeim 8 leikjum sem liðið spilaði, en Ísland endaði í 8. sæti mótsins. Frá þessu segir á vefnum Karfan.is . Tryggvi leiddi alla leikmenn mótsins í framlagi með 26 framlagsstigum að meðaltali í leik. Þá var hann þriðji í fráköstum, efstur í vörðum skotum og sá sjöundi stigahæsti allra á mótinu.

Íslenska U-20 ára landsliðið varð í 8. sæti á mótinu og er þetta besti árangur sem Íslenskt körfuboltalandslið hefur náð frá upphafi, þrátt fyrir tap gegn Þýskalandi í leik um sjöunda sæti mótsins í dag.

Tryggvi Snær var að vanda gríðarlega sterkur hjá Íslandi í dag. hann endaði með 23 stig, 8 fráköst og tvö varin skot. Hann lennti hinsvegar í nokkrum vandræðum varnarlega gegn Moritz Wagner sem keyrði mikið á hann eða skaut yfir hann í leiknum.

NBA í framtíðinni ?

“Saga mótsins hingað til er Tryggvi Snær Hlinason og hans frammistaða. Á mótinu hefur hann komið sér í raðir efnilegustu leikmanna Evrópu og eru blaðamenn farnir að orða hann við NBA deildina í framtíðinni. Framfarir Tryggva eru ótrúlegar en það má ekki gleymast að hann byrjaði að stunda körfubolta fyrir þremur árum. Enn vantar nokkuð uppá vopnabúrið og þá sérstaklega varnarlega en miðað við framfarirnar sem hann hefur sýnt á þessum tíma verður spennandi að fylgjast með honum næstu misserin”, segir á vefnum Karfan.is