Tryggvi Snær skoraði sín fyrstu stig fyrir Valencia í meistaradeildarleik

Settur á lista yfir 5 efnilegustu leikmenn Evrópu

0
248

Tryggvi Snær Hlinason skoraði tvö stig á þeim sex mínútum sem hann lék fyrir Valencia í sigri gegn tyrkneska liðinu Anadoul Efes í Meistaradeildinni í körfubolta um helgina. Auk þess var hann með eitt frákast og einn varinn bolta í leiknum. Frá þessu er sagt á vefnum Karfan.is

Tryggvi lenti í nokkrum vandræðum með miðherja Efes Vladimir Stimac en honum tókst þó að verja einn bolta og ná að staðsetja sig ágætlega eftir því sem leið á. Hindranir Tryggva og hreyfanleiki leit enn betur út í leiknum og því ljóst á þessum sex mínútum að þessi efnilegi leikmaður er enn að bæta helling í sinn leik.

Þetta var fyrsti leikurinn sem Tryggvi Snær kemur eitthvað við sögu hjá meistaraliði Valencia eftir að hann gekk til liðs við félagið í september. Tryggvi fékk að vísu að koma inná í síðasta heimaleik liðsins en sú innkoma var á lokasekúndum þess leiks og kom Tryggvi aldrei við boltann.

Tryggvi einn af fimm efnilegustu leikmönnum Evrópu 

Karfan.is segir líka frá því að Tryggvi Snær Hlinason, hafi verið settur á lista yfir fimm efnilegustu leikmenn Evrópu af Dionysis Aravantinos á Eurohoops. Talið er upp að þetta tímabilið leiki 64 evrópskir leikmenn í NBA deildinni, sem sagðir eru vera að breyta leik þar.

Þá eru taldir upp þeir Kristaps Porzingis, Dario Saric, Giannis Antetokounmpo, Bogdan Bogdanovic, sem allir hófu ferð sína á stóra svið NBA deildarinnar með liðum sínum í Evrópu.

Ekki er leikmönnum listans gefin nein sérstök röð, en ásamt Tryggva eru þar hinn 19 ára gamli Rodions Kurucs hjá Barcelona, 18 ára gamli Dzanan Musa hjá Cedevita Zagreb, 21 árs gamli Anzejs Pasecniks hjá Gran Canaria og hinn 18 ára gamli Luka Doncic hjá Real Madrid.

Umfjöllunin um leikmennina í greininni nokkuð ítarleg, en um Tryggva segir að hann sé nú hluti af aðalliði meistara Valencia og að hann muni koma til með að þurfa að berjast fyrir mínútum til þess að sýna sig í vetur þar sem að liðið vilji líklegast gera allt til þess að verja meistaratitil sinn.

Greinina má lesa í heild hér