Tryggvi Snær maður leiksins í stórsigri Þórs á KR

16 stig 12 fráköst 30 í framlag

0
269

Körfuboltalið Þórs frá Akureyri gerði sér lítið fyrir og pakkaði Íslands- og bikarmeisturum KR saman, 83-65, í lokaleik 17. umferðar Domino´s-deildar karla í körfubolta sem fram fór í gærkvöldi í íþróttahöllinni á Akureyri.

Á vísi.is segir að Tryggvi Snær Hlinason hafi verið algjörlega stórkostlegur í leiknum en hann gaf tóninn strax í upphafi leiks með því að verja skot og setja tíu stig á töfluna í fyrsta leikhluta.

Tryggvi Snær sem var valinn besti maður leiksins skoraði 16 stig, tók 12 fráköst og klikkaði aðeins á einu skoti í öllum leiknum.

KR-ingar réðu ekkert við Tryggva í leiknum sem var með 30 framlagspunkta og var villu laus í leiknum.

Þór náði mest 29 stiga forskoti, 81-52, í fjórða leikhluta en slökuðu á undir lokin sem gerði KR-ingum kleift að laga stöðuna aðeins. Ævintýralega flottur sigur Þórsara engu að síður í höfn. George Beamon skoraði 19 stig fyrir Þór auk þess sem hann tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Eftir sigurinn er Þórsliðið komið í 5. sæti deildarinnar með 18 stig en KR er enn sem fyrr á toppi deildarinnar ásamt Stjörnunni með 26 stig.

Hér má sjá alla tölfræði leiksins.