Tryggvi Snær Hlinason hefur verið að spila vel með U18 landsliði Íslands á Norðurlandamótinu í körfubolta sem nú stendur yfir í Solna í Svíþjóð. U-18 ára landsliðið hefur byrjað mótið vel og hefur það unnið alla þrjá leiki sína á mótinu til þessa. Á morgun mæta þeir gríðarlegu sterku liði Svía, í leik sem sker eflaust úr hvort liðið verður Norðurlandameistarar. Tryggvi hefur verið í lykilhlutverki og hefur verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins. Frá þessu segir á vef Þórs á Akureyri.

Á miðvikudag lék liðið gegn Eistum og fóru leikar svo að Ísland vann með einu stigi 89-88. Tryggvi spilaði 18 mínútur í þeim leik og skoraði 2 stig og tók sjö fráköst.
Í gær voru Norðmenn andstæðingar okkar og þar hafði Ísland öruggan 80-55 sigur og í þeim leik lék Tryggvi 21 mínútur skoraði 4 stig og tók 8 fráköst.
Í dag mætti svo liðið Finnum og þar leit þriðji sigurinn dagsins ljós og lokatölurnar urðu 59-75 í þessum leik spilaði Tryggvi tæpar 22 mínútur, skoraði 4 stig og 3 fráköst.
Á morgun laugardag leikur liðið gegn Svíum í leik sem hefst klukkan 17 og á sunnudag eru Danir mótherjar Íslands sá leikur hefst klukkan 14:30.
Þjálfari U18 er Einar Árni Jóhannsson og aðstoðarþjálfari er Skúli Ingibergur Þórarinsson. Hægt er að fylgjast með gangi mála á heimasíðu Körfuknattleikssambandsins www.kki.is sem og á vefnum www.karfan.is