Tryggvi Snær Hlinason skrifaði undir tveggja ára samning við Valencia á Spáni í gær !

Fyrsti Bárðdælingurinn sem gerist atvinnumaður í boltaíþrótt

0
1243

Bárðdælingurinn Tryggvi Snær Hlinason skrifaði undir tveggja ára samning við spænska körfublotaliðið Valencia í gær og kemur til með að spila með liðinu á komandi tímabili í ACB deildinni á Spáni, en Valencia er núverandi spánarmeistari í körfubolta. Þetta staðfesti Guðrún Tryggadóttir móðir Tryggva, í spjalli við 641.is í morgun.

“Við fórum til Valencia um páskana og skoðuðum aðstæður hjá liðinu og okkur leist vel á þær. Umboðsmaður Jóns Arnórs Stefánssonar sem spilaði með Valencia í eitt ár, taldi að Tryggvi ætti heima í liðinu og þess vegna var ákveðið í gær að skrifa undir tveggja ára samning við félagið”, sagði Guðrún í spjalli við 641.is

Næsta verkefni Tryggva verður U20-mót sem fram fer hér á landi dagana 19.-21. júní í Laugardalshöllinni. Þá koma hingað U20 lið Svía, Finna og Ísraels. Leikinir verða tveir leikir á dag, kl. 17:00 og 20:00 og mun Ísland alltaf leika í seinni leik dagsins.

Síðan fer Tryggvi ásamt félögum sínum í U-20 ára liðinu til Krítar, en gríska sambandið bauð U-20 ára liðinu að taka þátt í æfingamóti fyrir EM, ásamt Spánverjum, Ítölum og heimamönnum Grikkjum. A-deild Evrópumótsins U-20 ára fer svo fram í Grikklandi að loknu æfingamótinu á Krít.

Að því loknu verður A-landslið Íslands valið fyrir Eurobasket og það fer eftir því hvort Tryggvi verði valinn í A-landslið Íslands eða ekki, hvenær hann fer til Valencia, að sögn Guðrúnar.

Tryggvi spilaði með nýliðum Þór Akureyri í Dominosdeildinni á síðustu leiktíð en liðið náði 8. sæti deildarinnar og fór í úrslitakeppni. Þar voru þeir slegnir út af meisturum KR.  Tryggvi skoraði 11 stig og tók 8 fráköst að meðaltali síðasta vetur.  Síðan þá hefur Tryggvi verið að tryggja sig kyrfilega í landsliði Íslendinga.

641.is óskar Trygga Snæ Hlinasyni til hamingju með samninginn, en hann er alveg örugglega fyrsti Bárðdælingurinn til að gerast atvinnumaður í körfubolta og einnig fyrsti Bárðdælingurinn til að gerast atvinnumaður í boltaíþrótt yfir höfuð.