Tryggvi Snær Hlinason er íþróttamaður Þórs 2016

0
428

Bárðdælingurinn stóri, Tryggvi Snær Hlinason og Stephany Mayor,eru íþróttafólk Þórs árið 2016. Þetta var kunngjört við lok samkomunnar “Við áramót” í Hamri á Akureyri í gærkvöld. Á vef Þórs á Akureyri segir að aðalstjórn félagsins kjósi íþróttafólk Þórs, karl og konu, en deildir félagsins höfðu áður tilnefnt íþróttafólk ársins úr sínum röðum, fjórar deildir tilnefndu bæði konu og karl, en tvær deildir tilnefndu einn íþróttamann úr sínum röðum.

Tryggvi og Stephany fengu afhenta verðlaunagripi sem gefnir voru af JMJ og Joe’s og var það Ragnar Sverrisson sem afhenti gripina. Þetta er í þriðja skiptið sem félagið velur bæði karl og konu sem íþróttafólk félagsins. Þau Stephany og Tryggvi Snær verða fulltrúar Þórs við kjör á íþróttamanni Akureyrar í janúar. Umsagnir deilda um íþróttafólk deildanna árið 2016 má sjá hér

Umsögn um Tryggva Snæ Hlinason

Tryggvi sem jafnframt var körfuknattleiksmaður Þórs 2015 og íþróttamaður Þórs 2015, hefur jafnvel náð að toppa sig frá árinu áður. Tryggvi var lykilmaður í liði Þórs sem tryggði sér efsta sæti 1. deildar og þar af leiðandi sæti í úrvalsdeild. Tryggvi var efsti maður liðsins í framlagi með 21,1, sem er hærra en atvinnumennirnir tveir í liðinu voru með. Tryggvi var með 12,8 stig að meðaltali í leik, 9,0 fráköst og 3,5 varin skot. Þess má geta að það lið sem varði næstflest skot í deildinni á eftir Þór var með samtals 3,0 skot varin að meðaltali í leik. Þessi ótrúlegi árangur varð til þess að Tryggvi var valinn í úrvalslið 1. deildar á lokahófi Körfuknattleikssambandsins, fékk atkvæði sem besti leikmaður deildarinnar og var valinn besti ungi leikmaður 1. deildar tímabilið 2015-16.

Tryggvi lék einnig lykilhlutverk í undir 20 ára landsliði Íslands, bæði á Norðurlanda- og Evrópumótinu. Þess má geta að þetta u20 ára lið náði besta árangri í sögu íslensks u20 liðs þegar það tryggði sér sæti í A-riðli með því að leggja hverja stórþjóðina í körfubolta á fætur öðru þ. á m. Rússland, Pólland og Grikkland. Þessi árangur er enn ótrúlegri fyrir þær sakir að liðum í A-riðli var fækkað verulega fyrir mótið og því hafði B-riðillinn aldrei verið jafn sterkur. Tryggvi sett met í keppninni en enginn leikmaður hefur áður tekið 13 sóknarfráköst í einum og sama leiknum, en þetta met afrekaði Tryggvi gegn stórþjóð Rússlands en Tryggvi tók samtals 19 fráköst í leiknum og skoraði 11 stig og varði 2 skot í þeim leik. Meðaltal Tryggva í þessu móti var 7,7 stig, 8,3 fráköst og 1,7 varið skot að meðaltali í leik.

Öllum að óvörum var Tryggvi svo í lok sumars valinn í lokahóp A-landsliðsins í körfubolta. Tryggvi var í 12 manna hóp í öllum leikjum hjá þessu sterka landsliði, sem tryggði sér á magnaðan hátt farseðilinn á lokamót Evrópukeppninnar (Eurobasket). Tryggvi kom lítið við sögu í keppnisleikjunum en náði að skora sín fyrstu stig fyrir A-landsliðið í æfingaleikjunum fyrir mótið. Varla þarf að taka það fram en Tryggvi var langyngstur allra leikmanna í landsliðinu.

Góður árangur Tryggva hefur haldið áfram nú í haust, því gengi nýliða Þórs í úrvalsdeildinni hefur komið á óvart. Liðið situr í 5. sæti deildarinnar með 6 sigra og 5 töp og er komið áfram í 8 liða úrslit í bikarkeppninni eftir magnaðan sigur á sterku liði Tindastóls í 16-liða úrslitum. Tryggvi er með 9,5 stig, 6,2 fráköst og 2,2 varin skot í leik það sem af er tímabilsins. Tryggvi er langhæstur í deildinni í vörðum skotum, auk þess að leiða deildina í nýtingu skota sinna. En Tryggvi klárar færi sín ótrúlega vel enda þekktur fyrir að troða með miklum krafti í körfuna eða leggja boltann í af stuttu færi. Um áramótin er Tryggvi í 12. sæti yfir framlagshæstu Íslendingana í deildinni. Það sést þó ekki nægilega vel á tölfræðinni einni saman hversu mikilvægur Tryggvi er fyrir liðin sem hann spilar fyrir, því hann bindur saman vörnina og er gríðarleg ógn af honum í teignum fyrir andstæðingana.

Tryggvi hefur vitaskuld vakið mikla athygli erlendra liða bæði vestanhafs og austan. Karfan.is hefur t.d. greint frá áhuga stórliða á borð við Valencia, auk þess sem margir stórir skólar í Bandaríkjunum hafa haft áhuga á honum og boðið honum að koma. Tryggvi er mikil og góð fyrirmynd. Duglegur að taka þátt í öllu starfi fyrir félagið sitt og landslið en hann er þekktur fyrir sína prúðmanlega framkomu hvert sem hann fer.

Helstu kostir Tryggva sem íþróttamanns er hvað hann er duglegur að æfa og er viljugur að læra. Tryggvi er mjög ósérhlífin og smitar hann sínum mikla baráttuvilja og glaðværð til liðsfélaga og áhorfenda en Tryggvi sannkallað „fan favorite“.

Frá því að Tryggvi hóf körfuknattleiksiðkun í byrjun árs 2014 hefur hann tekið stöðugum framförum og það er alveg klárt að ef hann heldur áfram á sömu braut mun Tryggvi ná langt í íþróttinni og bara spurning hversu lengi við Þórsarar fáum að njóta krafta hans.

Þess vegna er Tryggvi Snær Hlinason körfuknattleiksmaður Þórs árið 2016.