Tryggvi aftur stigahæstur í stórsigri á San Marinó – Myndband

0
280

A-landslið karla í körfubolta sigraði heimamenn í San Marinó örugglega 95-53 í öðrum leik liðsins á smáþjóðaleikunum í leik sem fram fór í gær. Líkt og í leiknum gegn Kýpur var Tryggvi Snær Hlinason stigahæstur með 15 stig og þá tók hann 10 fráköst. Tryggvi var ekki bara stigahæstur Íslenska liðsins heldur allra á vellinum. Spilatími Tryggva var rúmar 23 mínútur. Næstur kom Kristófer Acox með 13 stig og Jón Axel Guðmundsson 11 og Þórir Þorbjörn Þorbjarnarson með 9 stig.

Næsti leikur Íslands verður í dag, fimmtudaginn 1. júní gegn Andorru og hefst leikur liðanna klukkan 13:00 að Íslenskum tíma.

Tryggvi sýndi glæsileg tilþrif í leiknum gegn Kýpur þegar hann varði þriggja stiga tilraun eins Kýpverjans. Myndband af því má sjá hér að neðan.