Trjáviður úr Vaglaskógi seldur til Grundartanga

0
251

Mikið af trjávið sem féll til við grisjun í Vaglaskógi í sumar, hefur verið fluttur burt á stórum flutningabílum nú í haust. Trjáviðurinn var seldur til Elkem á Grundartanga þar sem hann var brenndur og notaður sem kolefnisgjafi í málframleiðslu þar. Trjáviður þykir bestur til framleiðslu á hágæðamálmi, en þeir hjá Elkem nota líka timburafganga frá Sorpu við málmframleiðsluna hjá sér, þar sem ekki fellur til nægilega mikill trjáviður hér innanlands.

Rúnar Ísleifsson, skógarvörður stoltur við myndarlegan viðarstaflann. Bak við þennan eru tveir aðrir staflar, nokkru minni. Mynd: Pétur Halldórsson
Rúnar Ísleifsson, skógarvörður stoltur við myndarlegan viðarstafla. Bak við þennan eru tveir aðrir staflar, nokkru minni. Mynd: Pétur Halldórsson

Töluvert viðarmagn er tiltækt í skógum landsins enda uppsöfnuð grisjunarþörf víða. Þar til samningur var gerður um sölu grisjunarviðar til Elkem á Grundartanga héldu margir að sér höndum við grisjun enda verkið erfitt og tímafrekt, skortur á vinnuafli og tækjum auk þess sem lítið fékkst fyrir viðinn. Nú stendur grisjunin undir kostnaði og jafnvel eilítið betur.

Stærstu grisjunarverkefnin á vegum Skógræktar ríkisins í sumar hafa verið unnin á Vöglum í Fnjóskadal og í Stálpastaðaskógi í Skorradal. Á Vöglum var aðallega grisjuð um hálfrar aldar gömul stafafura og lerki en einnig rauðgreni og svolítið af alaskaösp. Sömuleiðis var hreinsað upp timbur úr stafafurureit sem snjóflóð féll á í vetur.

Valgeir Davíðsson, starfsmaður skógarvarðarins á Vöglum, nýbúinn að afferma viðarvagninn af bolum úr skóginum. Mynd: Pétur Halldórsson
Valgeir Davíðsson, starfsmaður skógarvarðarins á Vöglum, nýbúinn að afferma viðarvagninn af bolum úr skóginum. Mynd: Pétur Halldórsson

Verktakinn Kristján Már Magnússon sem á grisjunarvél sem hann keypti í vor kom í Vaglaskóg í sumar með vélina og vann verkið hratt og örugglega. Hann felldi sagaði og afkvistaði trén en starfsmenn skógræktar ríkisins á Vöglum keyrðu þeim svo sjálfir heim á plönin.

Það fóru frá okkur 18 fulllestaðir flutningabílar í haust, sagði Rúnar Ísleifsson skógarvörður í Vaglaskógi í spjalli við 641.is. Runar sagðist reikna með því að alls hefðu farið um 800 til 900 rúmmetrar af trjávið úr Vaglaskógi til Elkem nú í haust.

Fullhlaðnir timburflutningabílar hafa vakið athygli vegfarenda á vegum landsins nú í haust og sýndu þeir vel fram á þau miklu verðmæti sem hægt er að fá út úr íslensku skógunum í dag. Skogur.is

(Texti: Pétur Halldórsson að hluta)

Timburstafli. Mynd: Pétur Halldórsson
Timburstafli. Mynd: Pétur Halldórsson