Tónkvíslin á morgun – Allt að verða klárt

0
275

Undirbúningur fyrir Tónkvísl 2016 söngvakeppni Framhaldsskólans á Laugum, stóð sem hæst þegar tíðindamaður 641.is leit við í íþróttahúsinu á Laugum í dag. Búið er að koma fyrir miklum búnaði í íþróttahúsinu og hengja mikið af ljóskösturum í loftið til þessa gera Tónkvíslina sem glæsilegasta.

Frá æfingu í dag.
Frá æfingu í dag.

 

Í beinni útsendingu á Bravó og Vísi.is

Nemendur Framhaldsskólans vinna sjálfir að uppsetningu á Tónkvíslinni ásamt tæknimönnum frá rúv og sjóvarpsstöðinni Bravó sem ætlar að sýna beint frá Tónkvíslinni annað árið í röð. Þetta verður í 11. skiptið sem Tónkvíslin er haldin og því komin mikil og góð reynsla fyrir undirbúningi á þessari stærstu tónlistarhátíð á Norðurlandi, við Framhaldsskólann á Laugum og ganga nemendur og kennarar samhentir í uppsetninguna eins og vel smurð vél.

 

Mikill búnaður er í íþróttahúsinu
Mikill búnaður er í íþróttahúsinu

 

17 söngatriði verða á dagskrá annað kvöld. Átta söngatriði koma frá Framhaldsskólanum á Laugum og átta söngatriði koma frá grunnskólunum í grenndinni, en þeir eru Borgarhólsskóli, Stórutjarnaskóli, Þingeyjarskóli og Öxarfjarðarskóli. Eitt söngatriði verður frá kennurnum og starfsfólki Laugaskóla og verður það í fyrsta skipti sem kennarar og starfsfólk stíga á svið á Tónkvísl. Ríkir mikil eftirvænting í herbúðum þeirra vegna þess.

 

Söngvarinn Eyþór Ingi verður sérstakur gestur Tónkvíslarinnar í ár. Dómnefnd velur 3 bestu atriðin úr hvorum flokki og áhorfendur í sal og heima í stofu velja svo vinsælasta atriðið úr hvorum flokki með símkosningu. Í ár sitja Þorvaldur Bjarni, Stefán Jakobsson og Bylgja Steingrímsdóttir í dómnefnd Tónkvíslarinnar.

Tónkvíslin hefst stundvíslega kl 19:30 annað kvöld en húsið opnar klukkan 18:30.

Miðaverð er krónur 3.000 fyrir fullorðna, 2.500 krónur fyrir NFL meðlimi og 2.000 krónur fyrir grunnskólabörn. Frítt er inn fyrir börn á leikskólaaldri.

Frá æfingu
Frá æfingu
Óttar lætur sig ekki vanta
Óttar lætur sig ekki vanta