Tónkvíslin á laugardag – Hver er leynigesturinn ?

0
120

Undirbúningur fyrir Tónkvíslina, sem er söngvakeppni Framhaldsskólans á Laugum, gengur mjög vel að sögn Tómasar Guðjónssonar formanns nemendafélags skólans. Tónkvíslin í ár er sú níunda í röðinni og ekkert hefur verið til sparað til að hún verði sú glæsilegasta af þeim öllum. 641.is leit við í íþróttahúsinu á Laugum í dag, en þá voru nemendur skólans ásamt tæknilið að leggja lokahöndina á undirbúninginn. Á morgun hefjast æfingar á sjálfum söngatriðunum með generalprufu kl 13:00.

Undirbúningur í fullum gangi.
Undirbúningur í fullum gangi.

Sigurvegari Tónkvíslarinnar fer í söngvakeppni framhaldsskólanna sem framlag Framhaldsskólans á Laugum, seinna í vetur. Þar fyrir utan taka þátt nokkrir grunnskólar á Norð-Austurlandi í keppninni og verða söngatriði frá Vopnafjarðarskóla, Reykjahlíðarskóla , Borgarhólsskóla, Þingeyjarskóla og grunnskólanum á Þórshöfn á dagskrá á laugardagskvöldið. Að sögn Tómasar verða 27 söngatriði á dagskrá Tónkvíslarinnar að þessu sinni og hafa þau aldrei verið fleiri. 12 söngatriði verða frá Framhaldsskólanum á Laugum, en 15 söngatriði verða með í grunnskólakeppninni.  Að sögn Tómasar verður Tónkvíslin mjög fjölbreytt og skemmtileg og hvetur hann sem flesta til að mæta og fylgjast með.

Teitur, Tómas og Óttar ásamt fleirum bera hitann og þungann af skipulagningunni.
Hrannar ,Teitur, Tómas og Óttar ásamt fleirum, bera hitann og þungann af skipulagningunni.

Í tengslum við Tónkvíslinna verður opið kaffihús í gamlaskóla á laugardeginum og margt verður þar í boði. Að sögn Tómasar verður leynigestur á Tónkvíslinni í hópi dómara . Leynigesturinn mun syngja þrjú lög en hann er vel þekktur íslenskur söngvari meðal eldri kynslóðarinnar, sagði Tómas, sem vildi eðlilega ekki gefa upp hver leynigseturinn er. “Þið verðið bara að koma á Tónkvíslina og sjá hann með eigin augum” bætti hann við.

Séð yfir sviðið í dag.
Séð yfir sviðið í dag.

Íþróttahúsið á Laugum tekur 650 manns og því eins gott fyrir áhugasama að mæta snemma til að komast örugglega að, en húsið opnar kl: 18:45. Sjálf Tónkvíslin hefst svo kl. 19:30.

Aðgangseyrir er kr 2000 fyrir fullorðna, 1500 kr. fyrir NFL-meðlimi, 1000 kr. fyrir grunnskólanemendur en frítt er inn fyrir börn á leikskólaaldri.