Tómlæti Jóns Steinars

0
116

Á föstudaginn var skrifaði ég stuttan pistil hér á 641.is eftir að hafa lesið grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögfræðings, sem þá þrem dögum fyrr hafði skrifað í Mogga til varnar verðtryggingunni. Sama föstudag birti Lögfræðingurinn framhaldsgrein í Mogga, ekki betri. Ég vissi það ekki þá, en ég veit það núna. Moggi fer sér nefnilega að engu óðslega við að breiða fagnaðarerindið um landsbyggðina. Í annað sinn get ég ekki orða bundist.

Gílsi Sigurðsson
Gísli Sigurðsson

Lögfræðingurinn segir hjartnæma sögu af tveim kunningjum sínum, lögfræðingunum Steina og Olla. Ég þekki þá ekki, en ég þekki hins vegar aðra félaga, sem heita Jón og Séra Jón. Ég ætla að segja ykkur aðeins frá þeim, sú saga er ekki síður hjartnæm.

Á árunum fyrir hrun bjuggu þeir við mjög svipuð kjör. Þeir höfðu báðir góða vinnu, svipuð laun og komust vel af. Gunna kona Jóns og Frú Guðrún kona Séra Jóns höfðu líka svipuð laun. Hvor hjón áttu tvö börn og tvo bíla. Hjónin leigðu bæði íbúðir í sama parhúsinu og borguðu sömu leigu. Bæði hjónin höfðu lagt fyrir af launum sínum og áttu á verðtryggðum reikningum í banka um 15 milljónir hvor.

Jóni og Séra Jóni var vel til vina og þeir ræddu oft um hvernig skynsamlegast væri að haga fjármálum sínum, svo þeir gætu stutt sem best við börnin og komið þeim til manns. Uppgangstímar voru, en 2006 voru blikur á lofti. Jón og Séra Jón vissu að ef banki færi á hliðina þá væru ekki nema rúmar þrjár milljónir tryggðar af innistæðum hvors þeirra. Hins vegar ef þeir ættu hús, þá stæði það fyrir sínu þó að allt færi á versta veg. Séra Jón taldi fráleitt að bankar færu á hausinn, slíkt bara gerðist ekki. En Jón var ekki alveg viss. Og svo fór að Jón og Gunna ákváðu að byggja sér hús á árunum 2006-2008, en Séra Jón og Frú Guðrún leigðu áfram á sama stað.

Jón og Gunna fóru varlega, að þau töldu. Húsið kostaði 40 milljónir, þannig að þau tóku 25 milljónir að láni, eða 62,5% af verðmæti hússins. Hóflegt veðhlutfall. Þau tóku verðtryggð lán, enga gengislána sénsa. Þau ætluðu bara að taka lán hjá Íbúðalánasjóði sem þá var farinn að lána 90% eins og við þekkjum. En þau komust að því að hámark var á lánum ÍLS, svo þau fengu bara 17 milljónir þar, eða 42,5%. Þetta kom svolítið á óvart, miðað við alla umræðuna í fjölmiðlum um 90% lánin. En það gerði ekkert til, lífeyrissjóðurinn þeirra lánaði þeim 8 milljónirnar sem á vantaði. Allt klárt. Afborgunin af lánunum var um 150 þúsund á mánuði, nákvæmlega sama tala og þau höfðu greitt samtals í leigu og sparnað.

Allt gekk þetta vel. Jón og Gunna unnu eins og þau gátu við bygginguna, til að spara. Séra Jón og Frú Guðrún komu oft um helgar og hjálpuðu til við að skafa og naglhreinsa og fleira. Jón tók ekki annað í mál en að borga þeim eitthvað fyrir, þó að Séra Jón segði það alveg óþarfa. Og stóra stundin rann upp. Laugardaginn 4. október 2008 flutti fjölskyldan í nýja húsið sitt, alsæl. Laugardagur til lukku.

En þá skeði eitthvað. Eftir hádegið 6. október hringdi Séra Jón í Jón og sagði honum að bankinn hans væri að fara á hausinn. Hann væri að tapa meira en 14 milljónum. „Ég hefði átt að sína sömu skynsemi og dugnað og þú Jón, koma þessu í steinsteypu“ sagði Séra Jón í símann. Jón reyndi að hughreysta vin sinn og sagðist ekki trúa því að nokkur stjórnmálamaður léti þetta gerast. Ríkið kæmi örugglega til bjargar. Og viti menn, það var það sem blessuð ríkisstjórnin gerði. Bjargaði öllum innistæðum manna og þar með peningum Séra Jóns. Það kostaði reyndar hátt í þúsund milljarða, en menn tala ekki um það, maður verður að gera það sem maður verður að gera!

Jón og Séra Jón töldu sig því hafa sloppið með skrekkinn. Fljótlega fór þó Jón að finna fyrir því að afborganirnar væru orðnar erfiðar, ofan á allar aðrar hækkanir. Fyrir jólin 2009 bauð hins vegar Séra Jón Frú Guðrúnu með sér í tvær vikur til Vínar fyrir jólin, svona til að upplifa stemminguna. Fyrir verðbæturnar skiljið þið. Ekki allar verðbæturnar, bara hluta af þeim, því þau lifa enn frekar spart.

Eftir að hafa í nær sex ár barist við að borga af stökkbreyttum lánum sínum, samtals um 15 milljónir, þá gáfust Jón og Gunna upp. Þau skulduð þá 34 milljónir. Í tvö ár áður en þau hættu að borga reyndu þau að selja húsið, en engin leið var að selja það fyrir skuldinni. Í síðustu viku var það selt á uppboði. Það var slegið á 25 milljónir. Kaupandinn var Séra Jón, hann greiddi út í hönd og á húsið skuldlaust. Nokkuð hefur tognað á vinskap Jóns og Séra Jóns síðustu daga. Jón og Gunna eiga hins vegar ekki neitt, og það sem verra er, þau skulda enn 9 milljónir vegna hússins. Þau hafa val um að reyna að greiða þessar níu milljónir eða láta gera sig gjaldþrota. Hvorn kostinn veldir þú, lesandi góður?

Þessi litla saga lýsir hinum íslenska veruleika eftir rúmlega fjögurra ára velferðarstjórn Jóhönnu og Steingríms. Nokkur hluti þjóðarinnar lifir í vellystingum, en meirihlutinn berst í bökkum. Margir eru farnir á hausinn nú þegar og fleiri bætast í þann hóp á degi hverjum. Og ástæðan er hin íslenska verðtrygging. Einhver stórvirkasta vinnuvél sem fundin hefur verið upp til að flytja eignir frá fátækum til ríkra. Nefnd undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar, vinar verkamanna númer eitt, komst að þeirri niðurstöðu í lok árs 2008 að alls ekki mætti frysta vísitöluna. Haf þú Gylfi grey, heila þökk!

Það er því þyngra en tárum taki að þurfa síðan að lesa í sífellu réttlætingargreinar eins og hinn bráðskarpi lögfræðingur Jón Steinar Gunnlaugsson býður okkur upp á. Tómlæti lögfræðingsins gagnvart þeim glæp sem hér hefur verið framinn er æpandi. Ég nefni ekki velferðarstjórnina.

Gísli Sigurðsson.