Tökur ganga vel á Game of Thrones

0
73

Nú standa yfir tökur á þriðju sjónvarpsþáttaröð Game of Thrones í Mývatnssveit, eins og sagt var frá hér á 641.is nýlega. Tökurnar hófust um sl. helgi og er áætlað að þeim ljúki 25. nóvember.  Að sögn Snorra Þórissonar hjá Pegasus hafa tökurnar gengið mjög vel þrátt fyrir afleitt veðurfar marga undanfarna daga. Reyndar voru forráðamenn þáttanna að vonast eftir snjó og leiðinlegu veðri og eru því hæst ánægðir með veðurfarið.

 

 

 

 

 

Mikill fjöldi fólks kemur að tökunum og er allt gistirými í Mývatnssveit uppbókað og eitthvað mun vera bókað á Húsavík líka vegna verkefnisins. Í gær voru um 70 aukaleikarar við tökur og alls voru því eitthvað á fjórða hundrað manns við tökur á þáttunum í gær. Í dag var tekið frí frá tökum.

Breski leikarinn Kit Harington leikur í þáttunum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íslensku aukaleikararnir, sem flestir komu úr Þingeyjarsýslu leika “Wildlings”  eins konar villifólk, sem áhorfendur Stöðvar 2 ættu að kannast við. Tökuliðið hefur aðstöðu í félagsheimilinu Skjólbrekku, en útitökur fara að mestu leit fram í landi Kálfastrandar, en þar er búið að reisa þorp.

Erlendu leikararnir eru flestir Breskir og Írskir og hafa því séð snjó áður, en kanski ekki í þetta miklu magni. Í gærkvöldi sást til himins og fylgdust leikaranir með norðurljósasýningu sem vakti ánægju þeirra.

Forráðafólk þáttanna er mjög strangt á myndatökur fjölmiðla á tökusvæðinu og aukaleikarar þurfa allir að undirrita þagnarskylduskjal um að segja ekki frá neinu því sem fram fer á tökustaðnum. Farsímar og myndavélar eru stranglega bannaðir á tökustað.

641.is hefur rætt við nokkra úr hópi aukaleikara og að þeirra sögn hefur þetta verið skemmtileg lífsreynsla en erfið. Dagarnir hafa verið langir og oft mikil bið. Aukaleikararnir þurfa  td. að vera mættir í Skjólbrekku kl 6 á morgnanna til þess að fara í búninganna og láta “smínka” sig. Þar fyrir utan hefur færð á vegum síðustu daga, ekki verið upp á það besta.

641.is sótti um leyfi til þess að taka myndir á staðnum en því var hafnað.