Tímasetning viðhorfskönnunar

0
101

Nú þegar niðurstöður liggja fyrir úr viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Þingeyjarsveit er ekki úr vegi að rifja upp nokkur atriði svona rétt áður en sveitarstjórnin tilkynnir ákvörðun sína í skólamálum.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

 

Samstaða boðaði til íbúafundar í Ljósvetningabúð 7. apríl sl. þar sem þeir kynntu fyrirhugað framboð. Áhugasömum sem mætt höfðu til fundarins bauðst að ræða og koma með hugmyndir til þess að hafa áhrif á stefnumál framboðsins í öllum málaflokkum nema skólamálum. Sú stefna var að því er fram kom ekki til umræðu.

 

 

Fimmtudaginn 10. apríl birti Samstaða síðan áherslur framboðsins. Skólastefnan fjallaði þá eingöngu um framtíð Þingeyjarskóla. Samstaða hugðist standa fyrir íbúakosningu til að fá úr því skorið hvort grunnskólastig skólans yrði frá haustinu 2015 starfrækt á einni starfstöð eður ei. Samkvæmt því sem þá var áætlað átti að gefa íbúunum á skólasvæðinu valdið í hendur svo framalega sem þeir sýndu því nægan áhuga (kosningaþátttaka yfir 50%). Þá ætlaði Samstaða, til þess að íbúarnir gætu tekið sem hagkvæmustu ákvörðun, að: „kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér.

Eins og allir vita varð ekkert úr því að íbúar fengu að kjósa en skýrslur voru unnar og eiga þær sjálfsagt að vera sú ítarlega kynning sem íbúarnir áttu að fá. Sem fyrr segir er viðhorfskönnunin, sem kom í stað íbúakosninga, að baki en ef einhverjar hugmyndir um mótvægisaðgerðir hafa verið kynntar íbúum með ítarlegum hætti þá fór það víst alveg framhjá mér. Eins hef ég ekkert séð um þær félagslegur afleiðingar sem hvor kostur um sig hefur í för með sér.

Í viðtali við oddvita Samstöðu, sem birtist á 641.is þann 11. apríl, kom skýrt fram að ekki stæði til að gefa íbúum kost á því að kjósa staðsetningu skólans, slíkt yrði í höndum sveitarstjórnar. Sjálfum fannst mér þessi yfirlýsing stangast nokkuð á við það sem fram hafði komið í stefnunni daginn áður með að kynna fyrir íbúunum kosti, afleiðingar og mótvægisaðgerðir. Þetta, og ýmislegt fleira í stefnu Samstöðu, varð reyndar líka til þess að ég sendi inn opna fyrirspurn, sem birtist á 641.is þann 23. maí. Þar spurði ég m.a. út í það hvort íbúarnir gætu ekki fengið að vita niðurstöður skýrslna um það hvor staðsetning væri hagkvæmari áður en þeir kysu um það hvort þeir vildu að skólinn yrði frá og með haustinu 2015 á einni eða tveimur starfstöðvum. Fram hafði komið í auglýsingu á skólastefnu Samstöðu, sem birtist í bættri og ítarlegri mynd í Hlaupastelpunni 15. maí, að ákvörðun sveitarstjórnar um staðsetningu myndi byggja á greinagerð sérfræðinga og því vildi ég líka vita hvort þessar greinagerðir yrðu allar aðgengilegar almenningi. Í opnu svari til mín þann 27. maí kom fram að það mat sem sveitarstjórn hyggðist nota til þess að taka ákvörðun um staðsetningu væri það sama og íbúum yrði kynnt fyrir kosningar og kysu út frá.

Af þessu hlýtur að mega draga þá ályktun að útkomnar skýrslur sem kynntar voru á almennum íbúafundi í Ýdölum séu það sem sveitarstjórn mun byggja sína ákvörðun á og þó svo að ýmsir hafi komið fram með athugasemdir varðandi sumt af því sem kemur fram í skýrslunum er ekki að sjá að meirihluti sveitarstjórnar hafi nokkuð við þær að athuga. Skýrslunum var vísað til umsagnar í fræðslunefnd sem lýsti á fundi sínum, þann 24. nóv. sl., yfir ánægju með skýrslurnar og taldi þær nýtast varðandi ákvarðanartöku um framtíðarskipan Þingeyjarskóla. Sveitarstjórn hefur samþykkt fundargerð fræðslunefndar án athugasemda við þennan lið hennar og með því tekið undir þetta álit nefndarinnar.

Mér finnst vandinn hins vegar liggja í því að þó svo að skýrslurnar séu mjög skýrar um sumt, eins og það að spara megi umtalsvert fé með því að kenna á einum stað, gefa þær ekki skýr og greinagóð svör um annað. Það er því hugsanlegt að margir hafi ekki gert sér grein fyrir því hverju þeir voru að svara í nýlegri viðhorfskönnun þegar þeir sögðust vilja að grunnskólastig Þingeyjarskóla yrði allt á einni starfstöð. Allir sáu augljóslega að það er fjárhagslega hagkvæmara en sennilega sáu ekki allir það sama út úr því hvor staðsetningin kemur betur út. Álit meirihluta sveitarstjórnar á því er víst tilbúið en í ljósi svaranna sem ég fékk við fyrirspurn minni í maí er kannski ekki óeðlilegt að spyrja sig hvort ekki hefði verið eðlilegra að gera viðhorfskönnun meðal íbúa Þingeyjarsveitar nú þegar þá loks ljóst er hvor staðsetningin er, að mati meirihluta í sveitarstjórn – út frá skýrslum sérfræðinganna, hagkvæmari.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson.