Tímaritið Skák kemur út 20. febrúar

0
95

Tímaritið Skák kemur út 20. febrúar nk. Um er að ræða mjög veglegt árstímarit þar sem farið verður yfir liðið ár og fjallað um helstu viðburði eins og Reykjavíkurskákmótið, Skákþing Íslands og Íslandsmót skákfélaga. Landsliðsmál verða reifuð og Ólympíumótið í Istanbúl fær gott rými í blaðinu. Það er Þingeyska skákfélagið Goðinn-Mátar sem hefur veg og vanda af útgáfunni.

Forsíða Tímaritsins Skák frá síðasta ári
Forsíða Tímaritsins Skák frá síðasta ári

 

Hinu kraftmikla æskulýðs- og unglingastarfi verða gerð skil en einnig starfi eldri borgara sem ekkert gefa eftir og virðast vera efnilegir fram eftir öllum aldri. Helgi Ólafsson ritar stórskemmtilega grein um Jóhann Hjartarson sem fagnar fimmtugsafmæli þann 8. febrúar n.k., Óttar M. Norðfjörð skrifar örsögu frá Spáni, Jón Torfason fjallar um Jóhann Þóri Jónsson og margt, margt fleira. Margar skákir eru í blaðinu með áhugaverðum skýringum. Blaðið verður um það bil 90 blaðsíður í glæsilegu broti. Öll skrif í blaðið eru unnin í sjálfboðavinnu.

 

 

Allir skákáhugamenn eru hvattir til að gerast áskrifendur að þessu glæsilega blaði og stuðla að því að því íslensk skáksaga varðveitist. Verð á blaðinu er aðeins 3.000 kr.

Hér er hægt að panta áskrift að Tímaritinu Skák