Tímamót og tækifæri

0
74

Á dögunum urðu nokkur tímamót í mínu pólitíska lífi þegar ég eftir 14 ára samfellda formennsku í Vinstrihreyfingunni grænu framboði lét af því embætti og Katrín Jakobsdóttir tók við keflinu. Það er mér sérstök ánægja að við starfinu skuli taka einn glæsilegasti fulltrúi yngri kynslóðar sem fram hefur komið lengi í stjórnmálum landsins. Í Katrínu sameinast ungur aldur og mikil reynsla en hún hefur gengt varaformennsku í VG í tæp 10 ár og nú ráðherraembætti með mjög farsælum hætti í á fimmta ár.

Steingrímur J Sigfússon
Steingrímur J Sigfússon

Katrín sýnir kjark og áræðni með þeirri ákvörðun sinni að stíga inn í forustusveit íslenskra stjórnmála, ung kona og þriggja barna móðir, á erfiðum tímum og vitandi vel að pólitík er ekki auðveldur starfsvettvangur um þessar mundir. Með því gerist hún glæsileg fyrirmynd kynsystra sinna, jafnaldra og allra sem bjóða fram krafta sína í þjónustu fyrir samfélagið.

En, lesendur góðir, ég held áfram í stjórnmálum, glaðbeittur sem aldrei fyrr og auknu frelsi feginn.

 

Ég skipa 1. sætið á lista VG fyrir alþingiskosningarnar í vor hér í kjördæminu, verð áfram atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og hef fullan hug á þátttöku í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, verði til þess aðstæður. Ég hlakka til að fá aðeins frjálsari hendur til að sinna ekki síst kjördæminu sem ég hef þjónað í heild eða að hluta í 30 ár sem þingmaður eða þingmaður og ráðherra á víxl.

Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng
Nú eru spennandi tímar framundan í Norðausturkjördæmi. Framkvæmdir eru að hefjast við tvenn jarðgöng sem bæði marka mikil tímamót. Ný Norðfjarðargöng eru löngu tímabær og verða mikil lyftistöng fyrir Norðfjörð, sveitarfélagið Fjarðabyggð og raunar allt Austurland. Lykilstofnanir fyrir fjórðunginn sem staðsettar eru á Norðfirði sem og gríðarmikil umsvif á staðnum með tilheyrandi flutningum gera þessa framkvæmd eina af hinum brýnustu í samgöngukerfi landsins frá sjónarhóli allt í senn öryggis, þjóðhagslegar hagkvæmni og byggðafestu.

Þá er gerð Vaðlaheiðarganga gríðarlega mikilvæg samgöngu- og byggðaaðgerð að mínu mati. Með þeim renna Eyjafjarðarsvæðið og vestanverðar Þingeyjarsýslur meira og minna saman í eitt atvinnu-, þjónustu- og samskiptasvæði. Öryggi í samgöngum milli Norðurlands og Austfjarða vex til muna og til verður öflugri mótvægisöxull við Suðvesturhornið.

Líkt og annars staðar á landinu hefur mikill vöxtur einkennt ferðaþjónustuna víða í kjördæminu. Líflegt er víða yfir sumartímann eins og glöggt má sjá á Húsavík, Siglufirði, Mývatni, Akureyri, á Héraði, Borgarfirði eystra og víðar. Vetrarferðamennska er einnig að aukist og víða sóknarfæri til staðar utan háannar. Nýlega var ákveðið að stórauka framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í tengslum við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, bæði til að bæta við nýjum áfangastöðum ferðamanna og úrbóta á hinum sem þegar eru fjölsóttir. Ég vona að kjördæmið beri sig eftir björginni og menn sæki í þennan sjóð á komandi mánuðum og misserum.

Kísilver í undirbúningi á Bakka
Stjórnvöld hafa að undanförnu ásamt sveitarfélaginu Norðurþingi átt í viðræðum við þýska iðnfyrirtækið PCC um uppbyggingu kísilvers í landi Bakka við Húsavík. Þær viðræður hafa gengið ágætlega og skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu innviða og ívilnanir. PCC vinnur nú að lokaundirbúningi vegna verkefnisins. Þarna er um að ræða meðalstórt iðnaðarverkefni sem mun nota í fyrri áfanga rúm 50 MW af endurnýjanlegri orku frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum, um 120  varanleg störf verða til og um 400 störf á byggingartíma. Mikilvægt er að ná samningum við fyrsta fyrirtækið á Bakka. Eftirleikurinn verður auðveldari þegar fjárfest hefur verið í nauðsynlegum innviðum og fyrsta fyrirtækið er búið að brjóta ísinn, þá er kominn nýr staðsetningarvalkostur fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu í landinu með orku Þingeyjarsýslna í bakgarðinum .

Bjart framundan
Atvinnuástand hefur farið batnandi og reyndar verið mun betra á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu allt frá hruni. Myndarleg uppbygging og mikil umsvif tengjast sterkri stöðu Norðausturhornsins, þ.e. Þórshafnar og Vopnafjarðar og svo Austfjarða í uppsjávarveiðum og vinnslu og við Eyjafjörð eru öflugustu bolfiskvinnsluhús landsins. Árstíðarsveifla í uppsjávargreininni hefur minnkað eftir tilkomu makríls á Íslandsmið sem hefur reynst kærkomin búbót. Því miður er þó atvinnuástandið á nokkrum stöðum lakara og tilteknar byggðir eins og Raufarhöfn eiga í alvarlegum vanda. Ný aðferðafræði Byggðastofnunar og náin samvinna með íbúum, eins og velheppnað íbúaþing á dögunum var til marks um, vekur þó vonir um að hægt sé að snúa við þróuninni þar eins og annars staðar þar sem við bráðavanda er að glíma.

Ég er almennt bjartsýnn á framtíðina á Norður- og Austurlandi og hef fulla trú á að þar muni verða eitt helsta hagvaxtar- og uppbyggingarsvæði landsins á næstu árum. Lykillinn að farsælli búsetuþróun er fjölbreytni í atvinnumálum. Nú á árunum eftir hrun hefur margt þróast í þá átt víða um land. Undirstöðuatvinnuvegirnir, sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta, verða áfram mikilvægir fyrir kjördæmið á komandi árum, en aukin fjölbreytni þarf að koma til, m.a. gegnum sóknaráætlanir landshluta, fjárfestingaráætlun, stuðning við skapandi greinar og stóraukið fjármagn í tækniþróunar- og rannsóknarsjóði. Loks má nefna stöðu og möguleika Akureyrar sem miðstöðvar Norðurslóðamála á Íslandi, þjónustu við olíu- og gasleit, mikla möguleika landbúnaðar- og matvælaiðnaðar og þannig mætti áfram telja.

Steingrímur J. Sigfússon, 1. þingmaður Norðaustur-kjördæmis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.