Tillögu kastað fram án raka

0
96

Það var auðvitað ljóst að það kæmi fram tillaga um framtíðarskipan Þingeyjarskóla og það var líka ljóst að sú tillaga fæli í sér hvar staðsetning Þingeyjarskóla ætti að vera til framtíðar. Miðað við þróun mála síðustu mánuði kemur tillagan ekki á óvart. Mér finnst þessi tillaga ekki taka tillit til þeirra raka sem ég hefði talið að væri ráðandi fyrir svona ákvörðun”, sagði Ragnar Bjarnason oddviti minnihluta T-listans í spjalli við 641.is eftir sveitarstjórnarfund í gær.

Ragnar Bjarnason
Ragnar Bjarnason

“Við þurfum að hugsa um sveitarfélagið í heild sinni. Hvernig sveitarfélagið sé sem sterkast til framtíðar og þá þarf að vega og meta út frá þeim punkti, þá kosti og galla sem eru á hvorri staðsetningunni fyrir sig. Það eru bæði kostir og gallar við báða staðina. Ég sakna þess gríðarlega að það sé ekkert lagt fram með þessari tillögu, þar sem búið er að meta þessa kosti og galla á hvorum stað fyrir sig og þar af leiðandi geta tekið vel ígrundaða ákvörðun um staðsetninguna”

 

 

 

Aðspurður um hvort fræðslunefnd eða skólaráð geti tekið upplýsta ákvörðun um tillöguna þegar ekki fylgir nein greinargerð eða rökstuðningur með henni, sagði Ragnar það erfitt fyrir fræðslunefnd og skólaráð að taka vel ígrundaða ákvörðun þegar enginn greinargerð eða rökstuðninur fylgi með tillögunni.

“Það eru engin efnisleg rök með tillögunni og það er ekki hægt að ræða efnilega um rök með eða á mót hvorri staðsetningunni fyrir sig þar sem þau eru ekki lögð fram. Það er bara kastað fram tillögu og engin rök með henni. Mér finnst það vera algjört grundvallar skilyrði þegar verið er að taka stórar ákvarðanir að þær séu teknar á grundvelli einhverra raka. Það er ekki hægt að taka akvörðun af því bara. Þetta er miklu stærri ákvörðun en svo”, sagði Ragnar Bjarnason.